Innlent

Segir Dag B. Eggertsson vera með útúrsnúninga

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

„Núverandi meirihluti er staðráðinn í að fara í þessi mál af fullum krafti í góðu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila á þessu svæði. Þetta er stórmál og við ætlum að standa vel að þessu og setja í þetta aukið fjármagn," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Dagur B. Eggertsson sagði á Vísi fyrr í dag að engin efnisleg afstaða hefði verið tekin til tillagna íbúa, kaupmanna, veitingahúsaeigenda og fulltrúa ferðaþjónustunnar sem finna mætti í ítarlegri skýrslu um betri miðborg sem lögð var fram í borgarráði í dag. Þess í stað hafi ný nefnd verið stofnuð um málið og boðað að borgarráð tæki afstöðu til málsins fyrir apríllok.

Vilhjálmur segir þetta rangt því nú hafi m.a. verið settur á laggirnar átakshópur sem ætlar að vinna hratt að brýnustu úrlausnarefnum miðborgarinnar og nefnir þar hreinsun, veggjakrot og yfirgefin hús í miðbænum.

Hann segir einnig að búið að ákveða að ráða sérstakan verkefnastjóra sem á að hafa umsjón með þessu starfi. Vilhjálmur segir mikið hafa gerst í þessum málum á síðustu tveimur vikum og segir Dag B. Eggertsson vera með útúrsnúninga sem hljóti að vera settir fram gegn betri vitund.

Hann segist binda miklar vonir við að núverandi meirihluti fái minnihlutann með sér í þessa vinnu og enda sé mikill hugur í mönnum. „Þessu hefur verið tekið vel af öllum nema Degi B Eggertssyni sem lítur neikvætt á flest sem er gert."


Tengdar fréttir

Óvissan verst fyrir miðborgina segir Dagur

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi segir enga efnislega afstöðu hafa verið tekna til tillagna íbúa, kaupmanna, veitingahúsaeigenda og fulltrúa ferðaþjónustunnar sem finna mætti í ítarlegri skýrslu um betri miðborg sem lögð var fram í borgarráði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×