Innlent

Óvissan verst fyrir miðborgina segir Dagur

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi segir enga efnislega afstöðu hafa verið tekna til tillagna íbúa, kaupmanna, veitingahúsaeigenda og fulltrúa ferðaþjónustunnar sem finna mætti í ítarlegri skýrslu um betri miðborg sem lögð var fram í borgarráði í dag. Þess í stað hafi ný nefnd verið stofnuð um málið og boðað að borgarráð tæki afstöðu til málsins fyrir apríllok.

„Ég vil orða þetta þannig að okkur hafi tekist að koma málefnum miðborgarinnar rækilega á dagskrá borgarstjórnar. Það er miður að menn hafi ekki nýtt þessa mánuði sem lúrt var á skýrslunni til að taka að minnsta kosti afstöðu til þeirra tillagna sem í henni eru en stofna þess í stað enn eina nefndina," sagði Dagur. „Við í minnihlutanum munum fylgja þessum miðborgarmálum þannig eftir að það verði gripið til aðgerða, hvort sem það er þessi nefnd eða einhver önnur.

Margar ágætar tillögur liggja fyrir sem ástæða er til að taka af skarið með og gefa skýr skilaboð til eigenda húsa og uppbyggingaraðila svo þeir viti hver stefna borgaryfirvalda er því óvissan er líklega það sem er verst fyrir miðborgina," sagði hann enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×