Viðskipti innlent

Seðlabanki Íslands segir samkomulagið í fullu gildi

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans.
Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans.

Seðlabanki Íslands segir samkomulagið um viðbrögð við fjármálaáföllum milli seðlabanka Norðurlandanna í fullu gildi. Samkomulagið megi finna á vefsíðum allra norrænu seðlabankanna ásamt þeirri fréttatilkynningu sem var gefin út á sínum tíma.

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, segir að misskilja megi umfjöllun danska blaðsins Börsen í morgun. Lágar lánalínur sem voru í gildi milli bankanna voru lagðar af þegar samkomulagið var undirritað.

Tryggvi Pálsson segir í samtali við Vísi að tengslahópur sé starfandi meðal seðlabankanna samkvæmt samkomulaginu og hittist hann reglulega. Sá hópur breytist í viðbragðshóp ef til fjármálaáfalls kemur. Slíkt hefur ekki gerst og það sé sennilega það sem Niels Christian Beiler skrifstofustjóri hjá danska seðlabankanum eigi við í Börsen þegar hann segir að engar kringumstæður séu til staðar sem reyni á samkomulagið.

Umrætt samkomulag var undirritað í Stykkishólmi í júní 2003. Í tilkynningu sem send var út í kjölfar undirritunarinnar segir að „samkomulagið á við þegar alvarleg vandamál steðja að banka með höfuðstöðvar í einu Norðurlandanna og jafnframt með starfsstöð í öðru norrænu ríki." Þetta á við alla stóru bankana þrjá hér á landi.

„Samkomulagið er í fullu gildi en það hefur ekki reynt á það í fjármálaáfalli frá því það var gert á sínum tíma," segir Tryggvi Pálsson.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×