Handbolti

Alfreð sendi Guðjóni Val fallega kveðju: „Einn af bestu leikmönnum og karakterum sem ég hef þjálfað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson varð tvisvar sinnum Þýskalandsmeistari undir stjórn Alfreðs Gislasonar hjá Kiel.
Guðjón Valur Sigurðsson varð tvisvar sinnum Þýskalandsmeistari undir stjórn Alfreðs Gislasonar hjá Kiel. vísir/epa

Alfreð Gíslason talaði afar vel um Guðjón Val Sigurðsson í kveðju sem hann sendi landsliðsfyrirliðanum fyrrverandi í Seinni bylgjunni.

„Að þú sért hættur eru sorgartíðindi fyrir alla handboltaaðdáendur. Ég mjög stoltur að hafa þjálfað þig. Þú ert án efa einn af bestu leikmönnum sem ég hef þjálfað, líka einn af bestu karakterum sem ég hef þjálfað,“ sagði Alfreð.

Guðjón Valur lék undir stjórn Alfreðs hjá Gummersbach og Kiel í Þýskalandi og íslenska landsliðinu. Þeir þekkjast því afar vel.

„Það er sorglegt að þú sért kominn á fimmtugsaldurinn en líka að þú sért að hætta þrátt fyrir þennan aldur. Því ég held að 95 prósent af öllum leikmönnum nái aldrei því líkamlega atgervi sem þú býrð enn yfir í dag,“ sagði Alfreð.

„Ég óska þér alls hins besta elsku karlinn minn og reyndu nú aðeins að slappa af og njóta lífsins áður en baráttan byrjar aftur.“

Alfreð hætti hjá Kiel í fyrra eftir ellefu ára starf. Hann er nú tekinn við þýska landsliðinu.vísir/epa

Alltaf hægt að leita til Alfreðs

Guðjón Valur fór líka fögrum orðum um Alfreð og segir hann hafa haft mikil áhrif á sig, ekki bara sem handboltamann.

„Hann er frábær þjálfari og allt það en hann hefur haft meiri áhrif á mig sem karakter. Hann hefur alltaf fylgst með manni. Ég hef alltaf getað hringt í hann eða skrifað honum, sama hvað er,“ sagði Guðjón Valur um Alfreð.

Klippa: Seinni bylgjan - Kveðja Alfreðs til Guðjóns Vals

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×