Viðskipti innlent

Bjarni fer fram á tafarlausa endurskoðun launa bankastjóra

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Vihelm
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, hefur farið fram á við stjórn Bankasýslu ríkisins að hún komi því á framfæri við stjórnir Landsbankans og Íslandsbanka með afdráttarlausum hætti að ráðuneytið telji að endurskoða eigi launaákvarðanir æðstu starfsmanna bankanna tafarlaust.

Þetta segir Bjarni í bréfi til stjórnar Bankasýslu ríkisins en þar fer hann fram á að brugðist verði við launaskriði æðstu stjórnenda bankanna með undirbúningi á breytingum á starfskjarastefnum sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.

Bjarni segir í bréfi sínu að af svörum bankaráðs Landsbankans og stjórnar Íslandsbanka til Bankasýslunnar, sem bárust í síðastliðinni viku, megi ráða að ákvarðanir um launasetningu sé ekki settar í samhengi við og taki ekki tillit til annarra mikilvægra þátta eigendastefnunnar frá árinu 2017.

Þannig hafa laun æðstu starfsmanna sem fjallað er um í svarbréfum bankanna verið ákveðin úr hófi og leiðandi.

Er það mat ráðuneytisins að bankarnir hafi með launaákvörðunum fyrir æðstu stjórnendur ekki virt þau tilmæli sem beint var til þeirra í upphafi árs 2017 og sem ítrekuð voru gagnvart nýkjörnum stjórnum síðar það sama ár, þar sem lögð var áhersla á hófsemi og varfærni um launaákvarðanir.

„Við þá stöðu verður ekki unað,“ segir Bjarni í bréfi sínu til Bankasýslunnar. Traust og trúnaður verði að geta ríkt á milli þeirra sem falin er stjórn mikilvægra félaga og þeirra stjórnvalda sem bera ábyrgð á starfsemi þeirra sem eigandi.

„Launaákvarðanir bankanna hafa nú þegar haft veruleg neikvæð áhrif á orðspor þeirra og þannig valdið þeim skaða, auk þess sem þær sendu óásættanleg skilaboð inn í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir.“


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.