Brooke M. Henderson og Nelly Korda eru efstar og jafnar eftir fyrstu þrjá hringina á Lotte Championship sem fer fram á Hawaii. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni í golfi.
Þriðji hringurinn var sísti hringur Korda á mótinu til þessa en hún lék hann á einu höggi undir pari.
Það gaf Henderson tækifæri til að komast upp að hlið hennar. Sú kanadíska lék þriðja hringinn á þremur höggum undir pari. Þær Korda eru báðar á samtals 14 höggum undir pari.
Henderson vann Lotte Championship í fyrra og getur orðið sú fyrsta til að vinna mótið tvisvar.
Eun-Hee Ji frá Suður-Kóreu var með tveggja högga forystu eftir annan hringinn. Hún náði hins vegar engan veginn á strik í nótt og lék þriðja hringinn á tveimur höggum yfir pari.
Ji er samt sem áður í 3. sæti mótsins ásamt Minjee Lee frá Ástralíu. Þær eru aðeins einu höggi á eftir Korda og Henderson.
Ariya Jutanugarn frá Tælandi lék best á þriðja hringnum og kláraði hann á sex höggum undir pari. Hún er í 5. sæti mótsins, tveimur höggum á eftir efstu konum.
Bein útsending frá lokahring Lotte Championship hefst á Stöð 2 Golf klukkan 23:00 í kvöld.
Mikil spenna fyrir lokahringinn á Hawaii
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
