Viðskipti innlent

Kristjana lýkur störfum hjá Frétta­blaðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kristjana Björg lýkur störfum hjá Fréttablaðinu í lok febrúar.
Kristjana Björg lýkur störfum hjá Fréttablaðinu í lok febrúar. aðsend

Kristjana Guðbrandsdóttir hefur sagt upp störfum hjá Fréttablaðinu en hún hefur verið umsjónarmaður helgarblaðs fréttablaðsins um nokkurt skeið. Kristjana mun ganga til liðs við Iðunni fræðslusetur þar sem hún verður sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs.

Kristjana mun sinna hálfu starfi í janúar og febrúar til móts við Björk Eiðsdóttur sem mun taka við starfi Kristjönu. Kristjana segir í samtali við fréttastofu Vísis að starfslokasamningurinn sé með óhefðbundnu sniði en hún hafi ekki viljað yfirgefa skipið. „Ég ætla bara aðeins að hjálpa til, Björk er með lítið barn og er ekki komin með vistun fyrir barnið.“

Kristjana mun sinna ýmsum störfum hjá Iðunni en þar á meðal mun hún móta stefnu fyrir prent- og miðlunarsvið og halda utan um verkefni starfsgreinaráðs sviðsins. Auk þess mun hún stjórna framleiðslu á nýjum námsleiðum og -efni sem tengjast sviðinu.

„Menntamál eiga hug minn um þessar mundir en líka útgáfa, dagblöð og bækur. Það eru blikur á lofti í þessum mikilvæga menningariðnaði og það er þörf á því að hugsa í lausnum,“ segir Kristjana.

Björk hefur starfað hjá Torgi síðan í byrjun síðasta árs en hún tók þá við sem ritstjóri Glamour en þar áður hafði hún rekið tímaritið MAN í fimm ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×