Viðskipti innlent

Efling potar í þekkt fólk úr skemmtanaiðnaðinum vegna auglýsinga Eldum rétt

Jakob Bjarnar skrifar
Ilmur, Salka Sól og Emmsjé Gauti í hlutverkum sínum.
Ilmur, Salka Sól og Emmsjé Gauti í hlutverkum sínum. Eldum Rétt

„Eldum rétt rekur nú auglýsingaherferð með þekktum einstaklingum úr skemmtanaiðnaðinum, þar á meðal Emmsjé Gauta, Sölku Sól og Ilmi Kristjánsdótur.“ Þetta þykir stéttarfélaginu Eflingu mikilvægt að komi fram í samhengi við deilur Eflingar og Eldum rétt í ljósi upplýsinga sem fram komu í dag þess efnis að Eldum rétt hefði haft sex starfsmenn á leigu í þrjár til fjórar vikur hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu.

Efling og Eldum rétt takast nú á fyrir dómi vegna stefnu rúmenskra verkamanna á hendur síðarnefnda fyrirtækinu fyrir ólöglegan launafrádrátt og nauðungarvinnu. Efling rekur málið fyrir Rúmenana. Í tilkynningu á vef Eflingar kemur fram að í dómsskjölum sem lögð hafi verið fram vegna dómsmálsins komi fram að framkvæmdastjóri Eldum rétt hafi sagt fjölmiðlum ósatt þegar málið var til umfjöllunar fyrr á árinu.

Menn í vinnu var til umfjöllunar í Kveik árið 2018 sem varð tilefni til mikils uppþots í samfélaginu. Starfsmannaleigan hefur síðan verið úrskurðuð gjaldþrota en vann á dögunum mál gegn starfsmanni ASÍ fyrir ærumeiðingar í fjölmiðlum.

Efling minnir á að sömu stjórnendur og ráku Menn í vinnu reki í dag starfsmannaleiguna Seiglu ehf. undir nýrri kennitölu.

Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, tjáði Vísi í júlí að fyrirtækið hefði ráðið starfsfólk frá Mönnum í vinnu og þeir hefðu aðeins unnið þar í fjóra daga. Reikningurinn sem Efling krefðist að yrði greiddur væri fyrir miklu hærri upphæð.

Á heimasíðu Eflingar, hvar framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson stingur oftast niður penna, er fjallað um nýju dómskjölin.

„Umrædd dómsskjöl sýna með óyggjandi hætti að þrír verkamenn frá Mönnum í vinnu unnu í fjórar vikur hjá Eldum rétt og einn í þrjár viku. Þetta má sjá í tímaskýrslum sem lögmannsstofa Eldum rétt lagði sjálf fram. Reikningur frá starfsmannaleigunni til Eldum rétt sýnir fram á hið sama, en þar eru nöfn verkamannanna og talin upp undir liðnum „vöruheiti“.“

Farið er hörðum orðum um Eldum rétt í tilkynningunni og þrír íslenskir listamenn drengir inn í málið. Leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir, söng- og leikkonan Salka Sól Eyfeld og rapparinn Emmsjé Gauti. Má ráða að listamennirnir eigi að skammast sín fyrir að taka að sér að auglýsa Eldum rétt en auglýsingarnar hafa verið áberandi í sjónvarpi.

„Eldum rétt rekur nú auglýsingaherferð með þekktum einstaklingum úr skemmtanaiðnaðinum, þar á meðal Emmsjé Gauta, Sölku Sól og Ilmi Kristjánsdótur.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×