Matur

Aðventumolar Árna í Árdal: Lúsíubollur

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. Vísir/Árni

Á hverjum degi fram að jólum birtum við uppskrift frá Aðventumolum Árna í Árdal sem sýndir eru á Stöð 2 í desember. Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. 

Með einskærri lífsgleði og eldmóð hefur Árni sérstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér. Hér nær hann svo sannarlega að veita áhorfendum innblástur og töfrar fram bragðgóða og spennandi rétti alla aðventuna. Lúsíubollur má finna í uppskrift dagsins. Aðventumolann má sjá hér í spilaranum að neðan en uppskrift og leiðbeiningar er að finna neðar í fréttinni. Aðventumolar Árna í Árdal eru á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 alla daga fram að jólum nema á föstudögum eru þeir sýndir beint á eftir Allir geta dansað.  

Klippa: Lúsíubollur - Aðventumolar Árna í Árdal

Ein kær æskuminning sem ég hef af jólunum er af móður minni baka sætar gerdeigsbollur sem hún bragðbætti með dýrindis saffrani og skreytti með rúsínum. Nú þykir mér ómissandi að baka þær á aðventunni en þetta eru svokallaðar lúsíubollur. Það var sænsk prestsfrú á Ólafsfirði sem kenndi móður minni að baka þær á sínum tíma og síðan tók ég þetta sjálfur upp.

Í Svíþjóð er hefð fyrir því að baka lúsíubollur á Lúsíudaginn þann 13. desember og þá er mikil ljósahátíð. Að morgni dagsins kemur ung stúlka klædd sem Lúsía í hvítum kyrtli með ljósakórónu á höfði og færir fólki morgunmat. Samkvæmt Nönnu Rögnvaldardóttur koma bollurnar þó upphaflega frá Þýskalandi og tengdar Lúsífer. Á miðöldum var einhver trú um að skrattinn færi um á þessum tíma í kattarlíki og væri að refsa börnum eða flengja þau. Jesú færi þá um og gæfi góðum börnum gular bollur en guli liturinn átti að vera sérstakur verndarlitur.

Innihald

1 kúfuð teskeið saffran

15 grömm þurrger

200 grömm sykur

300 millilítrar mjólk, 40°C heit

2 egg, slegin saman

1 teskeið salt

750 grömm hveiti

200 grömm smjör, við stofuhita

100 grömm rúsínur

 

Leiðbeiningar

  1. Hrærið saffran, þurrger og eina teskeið af sykrinum við volga mjólkina í hrærivélaskál. Látið standa þar til blandan freyðir, um 10 mínútur.

  2. Bætið eggjum, afganginum af sykrinum, salti og hveiti út í mjólkurblönduna og hrærið saman. Hnoðið deigið í hrærivél með deigkrók á miðlungshraða í um 10 mínútur. Með vélina í gangi, bætið við smjörinu í smáum skömmtum þar til að það er algjörlega samlagað deiginu.

  3. Takið 50 rúsínur frá og hnoðið afganginn af þeim ofurvarlega í deigið. Látið deigið hefast í um 30 mínútur undir vel röku stykki.

  4. Skiptið deiginu í 25 jafnstóra hluta. Deigið er um 1500 grömm og því ætti hver hluti að vera um 60 grömm. Rúllið hvern hluta í 20 sentímetra lengju og myndið „S“ úr henni. Snúið þá hvorum enda í þéttan spíral þannig að úr verði nokkurs konar „8“. Leggið bollurnar með 5 sentímetra millibili á tvær ofnplötur með smjörpappírsörk. Leggið vel rök stykki yfir bollurnar og látið þær hefast í um einn og hálfan tíma eða þar til þær hafa tvöfaldast að stærð. Það myndast ljós för á bollunum þar sem rök stykkin snerta bollurnar en þau hverfa við bakstur.

  5. Forhitið ofn í 220°C, um 30 mínútum áður en bollurnar fara inn.

  6. Setjið rúsínu í hvorn spíral á hverri bollu. Sláið eitt egg saman og penslið bollurnar vel. Bakið eina ofnplötu í einu í miðjum ofninum í um 5 mínútur eða þar til bollurnar eru orðnar fallega brúnar að lit. Ekki baka þær mikið lengur því þá verða þær þurrar. Penslið bollurnar aftur með eggi um leið og þær koma úr ofninum, þá fá þær á sig mjög fallegan gljáa.

  7. Látið bollurnar kólna í um 10 mínútur og borðið þær svo ylvolgar með kaldri mjólk.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.