Körfubolti

Sportpakkinn: „Ég vil vinna og sé fyrir mér að ég geti gert það hjá Stjörnunni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar í Stjörnugallanum.
Gunnar í Stjörnugallanum. mynd/stöð 2
Stjarnan fékk góðan liðsstyrk í dag þegar Gunnar Ólafsson skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við félagið.

Gunnar hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin misseri og leikið 18 A-landsleiki.

Hann lék með Keflavík í fyrra en samdi við Oviedo í spænsku B-deildinni fyrir þetta tímabil. Samningi hans við félagið var sagt upp í síðasta mánuði.

„Mér líst mjög vel á að vera kominn í Garðabæinn og er mjög spenntur fyrir þessu öllu,“ sagði Gunnar í samtali við íþróttadeild eftir að skrifaði undir samninginn við Stjörnuna á Mathúsi Garðabæjar í dag.

Nokkur lið báru víurnar í Gunnar en Stjarnan varð fyrir valinu.

„Það er margt við Stjörnuna sem heillar mig. Þetta er gott félag sem vill gera vel á öllum sviðum og umgjörðin er góð,“ sagði Gunnar sem er uppalinn hjá Fjölni en lék svo í fjögur ár með St. Francis háskólanum í Brooklyn.

Stjarnan varð deildar- og bikarmeistari á síðasta tímabili og stefnir á að verða Íslandsmeistari næsta vor.

„Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég vil vera hér. Ég vil vinna og sé fyrir mér að ég geti gert það hér,“ sagði Gunnar sem byrjar að spila með Stjörnunni í janúar þegar keppni í Domino's deild karla hefst aftur eftir jólafrí.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Gunnar í Garðabæinn
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×