Körfubolti

Stjörnumenn bæta við sig landsliðsmanni í körfunni: Gunnar í Garðabæinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Sigurjón
Stjarnan vann 43 stiga sigur á Íslandsmeisturum KR í síðustu umferð Domino´s deildar karla og í dag bættu Stjörnumenn landsliðsmanni við leikmannahóp sinn. Garðbæingar eru því til alls líklegir í körfuboltanum í vetur.

Gunnar Ólafsson skrifaði í dag undir samning við Stjörnuna og fer því ekki aftur í Keflavík eins og margir bjuggust lið.

Gunnar hefur verið að leita sér að liði eftir að hann missti samning sinn á Spáni.

Gunnar gerði tveggja og hálfs árs samning við Stjörnuliðið og mun eflaust styrkja liðið í baráttunni í vetur. Hann var kynntur á blaðamannafundi í Mathúsi Garðabæjar í dag.

Gunnar var í íslenska landsliðinu sem spilaði í undankeppni HM í haust. Hann hefur alls leikið átján landsleiki. Gunnar þekkir vel til nokkurra leikmanna Stjörnunnar því þeir Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson voru einnig með í landsleikjunum í haust.

Gunnar lék í eitt tímabil með Keflavík eftir fjögurra ára dvöl hjá St. Francis háskólanum í Brooklyn en hann var einnig með Keflavík áður en hann fór út í skóla.

Gunnar fór út í atvinnumennsku í haust og samdi þá við spænska liðið Oviedo CB í spænsku Gulldeildinni. Oviedo sagði hins vegar upp samningi hans í nóvember en bæði Gunnar og bandarískur leikmaður liðsins voru látnir fara.

Gunnar spilaði 16,0 mínútur að meðaltali í átta leikjum með Oviedo CB og var í þeim með 3,0 stig, 0,5 fráköst og 0,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Gunnar var með 14,1 stig, 3,9 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali með Keflavíkurliðinu í Domino´s deildinni í fyrravetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×