Körfubolti

Stjörnumenn bæta við sig landsliðsmanni í körfunni: Gunnar í Garðabæinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Gunnar Ólafsson og Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Sigurjón

Stjarnan vann 43 stiga sigur á Íslandsmeisturum KR í síðustu umferð Domino´s deildar karla og í dag bættu Stjörnumenn landsliðsmanni við leikmannahóp sinn. Garðbæingar eru því til alls líklegir í körfuboltanum í vetur.

Gunnar Ólafsson skrifaði í dag undir samning við Stjörnuna og fer því ekki aftur í Keflavík eins og margir bjuggust lið.
Gunnar hefur verið að leita sér að liði eftir að hann missti samning sinn á Spáni.

Gunnar gerði tveggja og hálfs árs samning við Stjörnuliðið og mun eflaust styrkja liðið í baráttunni í vetur. Hann var kynntur á blaðamannafundi í Mathúsi Garðabæjar í dag.

Gunnar var í íslenska landsliðinu sem spilaði í undankeppni HM í haust. Hann hefur alls leikið átján landsleiki. Gunnar þekkir vel til nokkurra leikmanna Stjörnunnar því þeir Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson voru einnig með í landsleikjunum í haust.

Gunnar lék í eitt tímabil með Keflavík eftir fjögurra ára dvöl hjá St. Francis háskólanum í Brooklyn en hann var einnig með Keflavík áður en hann fór út í skóla.

Gunnar fór út í atvinnumennsku í haust og samdi þá við spænska liðið Oviedo CB í spænsku Gulldeildinni. Oviedo sagði hins vegar upp samningi hans í nóvember en bæði Gunnar og bandarískur leikmaður liðsins voru látnir fara.

Gunnar spilaði 16,0 mínútur að meðaltali í átta leikjum með Oviedo CB og var í þeim með 3,0 stig, 0,5 fráköst og 0,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Gunnar var með 14,1 stig, 3,9 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali með Keflavíkurliðinu í Domino´s deildinni í fyrravetur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.