Heimsmarkmiðin

UNICEF ætlar að mæta þörfum 59 milljóna barna á næsta ári

Heimsljós kynnir
Unicef
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur metið neyðarþörf fyrir árið 2020. Stofnunin kveðst þurfa rúmlega 520 milljarða íslenskra króna til að mæta brýnum þörfum 59 milljóna barna í 64 þjóðríkjum víðs vegar um veröldina. UNICEF hefur aldrei birt ákall um jafnmikla fjárhæð en hún er rúmlega þrisvar sinnum hærri en ákallið árið 2010.

„Í dag horfum við upp á metfjölda barna víðs vegar um heiminn sem þarf á neyðaraðstoð að halda, mesta fjölda frá því við hófum slíka skráningu. Fjórða hvert barn býr í landi þar sem ýmist geisar stríð eða hamfarir,“ segir Henrietta Fore framkvæmdastýra UNICEF. „Þessi börn eru nauðug rifin upp með rótum af heimilum sínum og þurfa tafarlausa vernd og stuðning. Átök eru megin ástæðan en hungur, smitsjúkdómar og öfgaveður tengt loftslagsbreytingum neyða milljónir annarra til að leita eftir lífsbjargandi aðstoð,“ bætir hún við.

UNICEF veitir börnum á átaka- og hamfarasvæðum margháttaða aðstoð eins og hreint neysluvatn, aðgengi að salernum, menntun, heilbrigðis- og öryggisþjónustu. Ef fullorðnum sem njóta stuðnings UNICEF er bætt við barnafjöldann nær ákallið til 95 milljóna manna.

Af einstökum heimshlutum er þörfin mest í grannríkjum Sýrlands þar sem þorri sýrlenskra flóttamanna býr, í Egyptalandi, Jórdaníu, Líbanon, Írak og Tyrklandi. Næst mest er þörfin í Jemen, þá í Sýrlandi, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Suður-Súdan.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×