Viðskipti erlent

Óttast um gjald­þrot seðla­prentara ís­lenska ríkisins

Eiður Þór Árnason skrifar
Seðlabanki Íslands segist fylgjast vel með stöðu mála.
Seðlabanki Íslands segist fylgjast vel með stöðu mála. Getty/LanceB
Mjög er óttast um fjárhagslega stöðu breska fyrirtækisins De La Rue sem prentað hefur íslenska peningaseðla fyrir Seðlabanka Íslands í fleiri áratugi.

Fyrirtækið gaf í síðustu viku út viðvörun þar sem hætta er sögð á því að félagið verði gjaldþrota ef áætlun þess um viðsnúning gengur ekki eftir og allt fer á versta veg. Fregnirnar koma í kjölfar þess að De La Rue greindi frá tapi á fyrri árshelmingi.

Aðspurður um það hvort Seðlabanki Íslands hyggist grípa til einhverra ráðstafanna vegna fregna af fjárhagsvandræðum De La Rue segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri bankans, einfaldlega „að Seðlabanki Íslands fylgist vel með stöðu birgja sinna.“

Fyrirtækið hefur gengið í gegnum nokkur veigamikil fjárhagsleg áföll á síðustu tveimur árum sem talin eru hafa haft neikvæð áhrif á rekstur þess.

Til að mynda missti De La Rue langvarandi samning sinn við breska ríkið um framleiðslu vegabréfa á síðasta ári.

Einnig neyddist það sama ár til þess að afskrifa átján milljóna punda kröfu, eða sem nemur tæpum 2,9 milljörðum íslenskra króna, á hendur venesúelska ríkinu eftir að seðlabankinn þar í landi gat ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart fyrirtækinu.

De La Rue, sem var stofnað árið 1821, prentar peningaseðla fyrir minnst 140 seðlabanka víða um heim og hefur útbúið breska seðla frá því að fyrirtækið hóf seðlaprentun árið 1860. Um er að ræða umfangsmesta seðlaprentara í heimi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×