Leikjavísir

Star Wars Jedi: Fallen Order - Góðir hlutir gerast hægt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Respawn
Það virðist ansi langt síðan við fengum góðan Star Wars leik. Star Wars Jedi: Fallen Order er góður Star Wars leikur og hann sýnir að það er vel hægt að gera einspilunarleik úr þessum söguheimi. Síðasti einspilunarleikurinn í SW-heiminum var Force Unleashed 2 sem kom út árið 2010.

Ég leyfi mér nú að halda því fram að Fallen Order sé betri en FU2. Annað væri undarlegt. Ég hef ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum með leikinn og mikið rosalega er gaman að fá að setja sig í spor Jedi-riddara á nýjan leik.

Fallen Order gerist fimm árum eftir Revenge of the Sith og íbúar stjörnuþokunnar fjarlægu eru að aðlagast nýjum veruleika undir Keisaraveldinu. Spilarar setja sig í spor Cal Kestis, fyrrverandi Padawan, sem lifði hina alræmdu „Skipun 66“ af á sínum tíma. Síðan þá hefur hann verið í felum en aðstæður breytast og hann þarf að fara á flótta undan útsendurum keisaraveldisins og rannsóknardómurum Darth Vader.



Cal tekur höndum saman við þau Cere Junda, sem er fyrrverandi Jedi, og flugmanninn Greez Dritus. Saman þurfa þau að ferðast um stjörnuþokuna í leit að lista yfir börn sem finna tengingu við máttinn, svo endurbyggja megi Jedi-regluna.

Um alfarið nýja sögu er að ræða með nýjum persónum, þó nokkrar sem þekkja má úr myndunum og þáttunum Clone Wars og Rebels sjáist.

 

EA hefur vægast sagt ekki farið vel með Star Wars-leyfið, sem þeir fengu 2013, en undanfarin ári hafa þeir haft einkarétt á framleiðslu þeirra leikja. Margir áhugaverðir leikir hafa „dáið“ í framleiðsluferlinu og þeir einu sem hafa verið gefnir út, auk Fallen Order, eru Star Wars: Battlefront 1 og 2. Það eru fjölspilunarleikir sem eru alls ekki slæmir, þó það sé ekki hægt að skjóta Ewoka í bakgrunni BF2. Útgáfu hans var þó algerlega klúðrað af EA.

Sjá einnig: Peningaplokk byggt á góðum grunni



Burtséð frá gæðum leiksins var Battlefront 2 hataður af fjölmörgum spilurum.

Fallen Order sleppur alfarið við það. Þetta er bara góður leikur, sem lítur mjög vel út, inniheldur áhugaverða sögu og ekkert kjaftæði.

Það er margra grasa að kenna í Fallen Order. Leikurinn ber keim af Uncharted seríunni, Tomb Raider, Dark Souls og ýmsum öðrum. Þetta kemur allt vel saman þó FO sé ekkert endilega að feta ótroðnar slóðir.

Bardagakerfi Fallen Order svipar mjög til bardagakerfis Souls-leikjanna þar sem spilarar þurfa að læra á hreyfingar öflugra óvina, forða sér undan árásum, skjótast að þeim, valda skaða og svo forða sér á nýjan leik.

Vísir/Respawn
Seinna meir, þegar Cal fær nýja krafta, eða endurlærir gamla krafta, verða bardagar mun fjölbreytnari og skemmtilegri. Annars eiga þeir á hættu að verða einsleitir. Það er annars svo einstaklega gaman að ná að gera eitthvað geggjað í bardögum. Drepa einn með sverðinu, kasta öðrum fram af kletti og ná að slá geislaskot Stormsveitamanns aftur í hausinn á honum, eða eitthvað álíka. Þegar maður nær einhverju svo töff, er æðislegt og oftar en ekki er finnst mér það í raun mikilvægara en að sigra óvini mína. Ég verð að vera töff á meðan ég geri það.

Í hverju borði eru nokkrir hugleiðslu-staðir sem hægt er að nota til að bæta krafta Cal, þegar búið er að safna nægum reynslustigum, og lækna hann. Þegar Cal er læknaður birtast allir óvinir sem búið er að fella í borðinu aftur, sem hleypur ákveðnu lífi í spilunina og gerir hana meira krefjandi.

Burtséð frá bardögum verja spilarar miklum tíma í að ferðast um borð leiksins með því að hlaupa eftir veggjum og hoppa um. Hvort borð er vel hannað og inniheldur mikið af leyndardómum.

Hvert borð Fallen Order inniheldur fjöldann allan af földum upplýsingum og annars konar góðmeti, sem oftar en ekki er ekki hægt að nálgast fyrr en seinna í leiknum þegar Cal hefur náð betri tökum á kröftum sínum.

Þá er líka mikið af gátum sem spilarar þurfa að leysa og þær eru sömuleiðis oftar en ekki vel gerðar. Það kemur þó fyrir að maður þarf að deyja ansi oft til að átta sig á því hvað rétt sé að gera og jafnvel er ómögulegt að komast að því öðruvísi en að deyja oft.

Það er því vel hægt að heimsækja plánetur nokkrum sinnum og þar með gera Cal kröftugari. Þar að auki er hægt að finna litla hluti sem hægt er að nota til að breyta geislasverði Cal, klæðnaði hans, útliti vélmennisins BD-1 og geimskipsins Stinger Mantis. Það er ekkert mikilvægt en þó skemmtilegt.

Vísir/Respawn
Ég hef ekki orðið var við galla í Fallen Order, fyrir utan einn þar sem ég dó og þegar ég fór til baka var Cal á sundi, undir yfirborði leiksins. Mér tókst þó að sleppa úr þeirri prísund með því að notast við hugleiðslu-staðinn aftur og draga Cal upp á yfirborðið. Þá byrjaði hann reyndar að svífa um borðið í smá stund en það virtist lagast að sjálfu sér.

Samantekt-ish

Í stuttu máli sagt hef ég engu yfir að kvarta vegna Fallen Order. Hann er skemmtilegur, krefjandi og inniheldur áhugaverðar gátur og þrautir. Sagan er sömuleiðis fín en ég verð þó að segja að ég er orðinn hálf þreyttur á því að alltaf sé verið að fylla upp í tómarúmið á milli þriðju myndarinnar og þeirrar fjórðu.

Solo, Rogue One, Force Unleashed leikirnir, þó þeir gildi ekki lengur, Mandalorian og ýmislegt annað. Star Wars er stærðarinnar söguheimur og ég vil fara aftur til Gamla lýðveldisins (Old Republic) eða til framtíðarinnar og upplifa algerlega upprunalegar sögur. Það er í rauninni það eina sem ég hef út á þetta allt að setja, þó það komi Fallen Order í rauninni ekki við.

Leikurinn lítur vel út, er vel leikinn og persónurnar eru flestar góðar. Hljóðið finnst mér sérstaklega gott en ætli það sé ekki eingöngu út af því hve gaman það er að heyra kveikt á geislasverði. Bzzzzzht.

Aðdáendur Star Wars geta ekki orðið fyrir vonbrigðum með Fallen Order og ég á erfitt með að ímynda mér að „hinir“ verði fyrir vonbrigðum.

Segjum þetta gott hér. Ég ætla að fara að installa KOTOR 1 og 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×