Umfjöllun og viðtöl: KR - Njarðvík 75-78 | Aftur töpuðu meistararnir á heimavelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mario Matosovic skoraði 16 stig fyrir Njarðvík.
Mario Matosovic skoraði 16 stig fyrir Njarðvík. vísir/bára
Njarðvík gerði góða ferð í Vesturbæinn og vann Íslandsmeistara KR, 75-78, í 8. umferð Domino's deildar karla í kvöld.Þetta var þriðji sigur Njarðvíkinga í röð í deildinni en þeir eru komnir upp í 6. sæti hennar. Þetta var hins vegar annað tap KR-inga á heimavelli í röð og þriðja tap þeirra í síðustu fjórum leikjum. KR er í 4. sæti deildarinnar.Saga fyrri hálfleiks voru yfirburðir gestanna úr Njarðvík inni í teig. Þeir höfðu yfirhöndina í frákastabaráttunni (29-18) og skoruðu miklu fleiri stig inni í teig (22-8).Njarðvíkingar voru sex stigum yfir eftir fyrri hálfleik, 31-37, þar sem þeir voru sterkari aðilinn.Gestirnir voru áfram með yfirhöndina í 3. leikhluta og náðu mest 15 stiga forskoti. Fyrir lokaleikhlutann var munurinn tólf stig, 49-61.KR byrjaði 4. leikhlutann af gríðarlegum krafti, skoraði fyrstu tólf stig hans og jafnaði í 61-61. Eftir að hafa haft mjög hægt um sig fyrstu 25 mínútur leiksins hrökk Michael Craion í gang og skoraði nær öll sín stig á þessum kafla.Sókn Njarðvíkur var ofboðslega stirð í upphafi 4. leikhluta og gestirnir hittu skelfilega. En þá tók Chaz Williams leikinn í sínar hendur. Hann skoraði nokkur stig á skömmum tíma og Njarðvíkingar náðu aftur yfirhöndininni.Þeir reyndust svo sterkari á svellinu undir lokin, kláruðu vítaskotin sín og unnu á endanum þriggja stiga sigur, 75-78.Af hverju vann Njarðvík?

Gestirnir voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum. Þeir höfðu mikla yfirburði inni í teig í fyrri hálfleik. Það jafnaðist í þeim seinni en Njarðvík endaði samt á því að skora tólf stigum meira inni í teig.KR-ingar komu með sterkt áhlaup í upphafi 4. leikhluta en þeir gerðu of mörg mistök til að geta unnið leikinn. Til að mynda skoraði Njarðvík 24 stig eftir tapaða bolta hjá KR.Hverjir stóðu upp úr?

Bandaríkjamennirnir hjá Njarðvík, Williams og Wayne Martin, áttu báðir góðan leik. Martin var öflugur í fyrri hálfleik og Williams gríðarlega mikilvægur í 4. leikhluta þegar Njarðvíkursóknin var komin í öngstræti. Hann skoraði 19 stig, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum fimm sinnum.Mario Matasovic átti góðan leik og skoraði 16 stig og Logi Gunnarsson og Ólafur Helgi Jónsson áttu góða kafla.Jakob Örn Sigurðarson var besti leikmaður KR í leiknum. Hann skoraði 15 stig og hitti vel.Hvað gekk illa?

KR-ingar voru linir inni í teig þar sem Njarðvíkingar réðu ríkjum. Þá voru heimamenn kærulausir á köflum og töpuðu boltanum klaufalega. Stóru mennirnir hjá KR, Craion og Kristófer Acox, töpuðu boltanum samtals ellefu sinnum í leiknum.Craion hefur oft leikið betur. Hann skoraði t.a.m. ekki körfu í fyrri hálfleik og lenti í villuvandræðum. Hann hrökk í gang í seinni hálfleik en í of stuttan tíma. Matthías Orri Sigurðarson náði sér heldur ekki á strik og hafði hægt um sig.Hvað gerist næst?

Eftir viku fá Njarðvíkinga Hauka í heimsókn. Degi síðar mætir KR Stjörnunni í Garðabænum í stórleik 9. umferðar.

Ingi var ekki sáttur með sína menn.vísir/bára
Ingi Þór: Þessi leikur vannst á sóknarfráköstum og töpuðum boltum

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, var ómyrkur í máli eftir tap Íslandsmeistaranna fyrir Njarðvík í kvöld. Þetta var annað tap KR-inga í röð á heimavelli.„Það vantaði að mæta almennilega til leiks. Það var fáránlegt hvað við vorum daufir,“ sagði Ingi eftir leik.KR lenti mest 15 stigum undir í 3. leikhluta en kom svo með sterkt áhlaup í upphafi þess fjórða. En svo fór vindurinn aftur úr KR-blöðrunni.„Við náðum frábærum kafla í 4. leikhluta en ég er ósáttur við að við höfum ekki unnið betur úr þeirri stöðu,“ sagði Ingi. „Við töpuðum boltanum níu sinnum í fyrri hálfleik, þar af sjö sinnum í 1. leikhluta. Við töluðum um að gera betur í þeim efnum en gerðum það ekki og töpuðum tólf boltum í seinni hálfleik. Þessi leikur vannst á sóknarfráköstum og töpuðum boltum. Það er klárt mál.“Njarðvík var með yfirburði inni í teig í fyrri hálfleik og tók m.a. tólf sóknarfráköst.„Bakverðirnir þeirra voru með fullt af sóknarfráköstum. Allt liðið frákastaði mjög illa,“ sagði Ingi. Honum fannst vanta upp á baráttuna hjá KR-ingum í kvöld.„Algjörlega. En svo áttum við feyki góðan kafla. Við breyttum aðeins hvernig við spiluðum,“ sagði Ingi.„Sóknarleikurinn okkar var svolítið einhæfur og við töpuðum boltanum vegna þess. Þeir gerðu mjög vel og því miður leystum við ekki það sem við ætluðum að gera.“

Einar Árni var ánægður með vinnusemi Njarðvíkinga í leiknum.vísir/bára
Einar Árni: Þetta er ástæðan fyrir því að við fengum Williams

„Ég er sáttur með mjög marga hluti í þessum leik. Það var frábært að vinna og ég er virkilega stoltur af drengjunum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir sigurinn á KR í kvöld.Njarðvíkingar voru miklu sterkari inni í teig í fyrri hálfleik; skoruðu meira þar og fráköstuðu betur. Einar kvaðst ánægður með viljann og baráttuna sem Njarðvík sýndi í leiknum.„Það var kraftur og vilji í okkur. Fyrr á tímabilinu urðum við undir í frákastabaráttunni en í síðustu leikjum hefur það snúist við. Það var áframhald af því í kvöld sem er vel gegn Craion og Kristófer,“ sagði Einar.„Fyrir mér stendur varnarleikurinn á löngum köflum upp úr. Þeir áttu sprett en annars fannst mér við alltaf vera með þennan leik,“ sagði Einar.Njarðvík náði mest 15 stiga forskoti í 3. leikhluta en KR átti svo gríðarlega góðan kafla í upphafi þess fjórða, jafnaði og komst yfir. Fór um Einar á þessum kafla?„Nei, nei. Þetta er aldrei þægileg staða. Við töluðum um það í hálfleik og fyrir 4. leikhluta að KR hættir aldrei. Við vitum það alveg,“ sagði Einar.„Ég er feykilega ánægður með vinnusemina og hversu margir lögðu í púkkið eins og í síðustu leikjum.“Chaz Williams reyndist Njarðvíkingum mikilvægur í kvöld, sérstaklega í 4. leikhluta þegar hvorki gekk né rak í sókn gestanna.„Þetta er ástæðan fyrir því að við fengum hann til okkar. Hann er eldfljótur, getur skotið og klárað í kringum körfuna. Hann brýtur niður varnir og býr til fyrir aðra. Hann gerði það sem ætlast er til af honum. Wayne [Martin] var frábær í fyrri hálfleik og Chaz tók við keflinu í þeim seinni,“ sagði Einar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.