Umfjöllun og viðtöl: KA - ÍBV 25-35 | Eyjamenn burstuðu heimamenn

Rúnar Þór Brynjarsson skrifar
ÍBV gerði góða ferð norður og vann öruggan sigur.
ÍBV gerði góða ferð norður og vann öruggan sigur. vísir/bára
ÍBV átti ekki í neinum vandræðum með KA þegar liðin mættust á Akureyri í 11.umferð Olís-deildar karla í handbolta í dag.

Í fyrri hálfleik voru gestirnir frá Vestmannaeyjum sterkari og leiddu þeir allan tímann. Sóknarleikur var lengi af stað hjá KA og bættu þeir við manni þar á  9.mínútu leiksins og batnaði leikur KA manna við þær breytingar. KA minnkaði muninn niður í eitt mark á 20.mínútu en ÍBV gaf þá í og voru yfir 14-18 í hálfleik.

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur í liði gestanna í fyrri hálfleik með 7 mörk.

Einar Birgir og Allan Norðberg voru markahæstir í liði KA með 3 mörk hvor.

Síðari hálfleikur var svipaður þeim fyrri. ÍBV sterkir í vörn sem sókn og rataði nánast allt inn sem vildi hjá gestunum. Mörg klaufamistök hjá KA mönnum gerðu gestunum auðvelt fyrir og vann ÍBV að lokum tíu marka sigur.



Af hverju vann ÍBV?

Gott skipulag hjá Eyjamönnum gerði KA erfitt fyrir. KA reyndi að finna svör en gestirnir voru alltaf með tak á þeim. KA reyndi ýmislegt; þeir bættu við manni í sóknina og breyttu um varnarkerfi en tókst ekki að stöðva Eyjamenn í sínum aðgerðum. 



Hverjir stóðu uppúr?

Hákon Daði Styrmisson var markahæstur í dag með 11 mörk og var gríðarlega flottur.

Fannar Friðgeirsson og Kristján Örn Kristjánsson koma á eftir honum með sitthvor 6 mörkin.  



Hvað er næst?


ÍBV sækir Stjörnuna heim á meðan KA fær Aftureldingu í heimsókn.

Jónatan: Tek ekkert jákvætt úr þessum leik
Jónatan Magnússon er þjálfari KA.vísir/bára
„Mjög svekktur. Við fengum 35 mörk á okkur sem segir okkur það að vörnin og markvarslan var ekki góð hjá okkur í dag,“ voru fyrstu viðbrögð Jónatans Magnússonar, þjálfara KA, í leikslok.

„Heilt yfir margt sem klikkaði í dag og okkur gekk illa að ráða við þá. Ég í rauninni tek ekki neitt jákvætt úr þessum leik.“

„Þegar maður tapar með 10 mörkum á heimavelli er voðalega erfitt að finna eitthvað jákvætt. Ég tek ekkert af ÍBV þeir voru með svör við öllu og geta verið ánægðir með sinn leik,“ segir Jónatan.

Kristinn: Höfum líkamlega yfirburði yfir KA„Það er alltaf erfitt að koma norður og er ég mjög sáttur með okkar frammistöðu í dag,“ sagði kampakátur Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV. En hvað skóp sigurinn?

„Góður undirbúningur og góð liðsheild. Við vorum með það á hreinu hvernig við ætluðum að spila þennan leik og við náðum að halda okkur við það plan,“ segir Kristinn.

„Við höfum líkamlega yfirburði yfir KA liðið í ákveðnum styrk og þyngd og við nýttum okkur það. Við settum upp stöður sem eru rosalega erfitt fyrir þá að leysa,“ sagði Kristinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira