Heimsmarkmiðin

Líkamlegar refsingar hafa alltaf alvarlegar afleiðingar

Heimsljós kynnir
Skólabörn í Mósambík.
Skólabörn í Mósambík. gunnisal
Flengingar barna, eða aðrar líkamlegar refsingar, tíðkast enn víða í veröldinni þrjátíu árum eftir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna leit dagsins ljós. Aðeins átta Afríkuríki af rúmlega fimmtíu hafa lögbundið bann við líkamlegum refsingum barna en slík háttsemi er enn lögleg í öllum ríkjum Bandaríkjanna, að New Jersey og Iowa undanskildum. Pólland var fyrsta landið í heiminum til að banna líkamlegar refsingar í skólum, árið 1783.Á alþjóðadegi barna í vikunni var sjónum beint að ýmsum réttindamálum barna, meðal annars útbreiddum líkamlegum refsingum sem börn sæta í skólum eða á heimilum vegna óþekktar eða annarrar óæskilegrar hegðunar. Í Suður-Afríku voru nýlega samþykkt lög þess efnis að það bryti í bága við stjórnarskrána að beita börn harðræði. Bæði í Búrúndi og Búrkina Fasó má enn beita börn líkamlegum refsingum á heimilum.Hvarvetna í Evrópu er bann við líkamlegum refsingum í skólum, slík ákvæði eru í lögum í Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og flestum rík í Suður-Ameríku og Austur-Asíu. Alls er óheimilt að beita börn líkamlegum refsingum í skólum í um það bil 130 ríkjum heims en 70 ríki hafa ekki lögbundið slík ákvæði.Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er þó skýr hvað þetta varðar því í 19. grein hans felst að aldrei sé heimilt að beita líkamlegu afli til þess að aga börn, óháð því hvort slíkt hafi sýnilegar afleiðingar eða ekki. Í íslenskum barnaverndarlögum er enn fremur ákvæði þar sem segir að það varði fangelsi allt að þremur árum eða sektum að beita barn refsingum, hótunum eða ógnunum, ef ætla má að það skaði barnið andlega eða líkamlega.Í frétt Deutsche Welle er frásögn um að barn hafi látist í Burkina Fasó eftir barsmíðar af hálfu kennara. Þótt slíkar hræðilegar afleiðingar heyri til undantekninga er haft eftir Goro Palenfo hjá Barnaverndarstofu landsins að þegar líkamlegum refsingum er beitt í uppeldi barna hafi þær alltaf alvarlegar afleiðingar fyrir barnið, andlega og líkamlega. Hann segir þessa háttsemi ekki bundna við skóla. Umburðarlyndi gagnvart líkamlegum refsingum ríki í samfélaginu og heima fyrir fái börn að kenna á prikinu eða fái högg.Að mati Sonia Vohito hjá alþjóðasamtökum gegn líkamlegum refsingum í garð barna þarf meira en hugarfarsbreytingu til þess að uppræta slíka hegðun. Hún segir fyrsta skrefið vera að gera refsingarnar ólöglegar, þannig yrði barnið að minnsta kosti verndað af lagabókstafnum.Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.