Skoðun

Er fólk bara tölur?

Þröstur Friðfinnsson skrifar
Þingsályktunartillaga um málefni sveitarfélaga, grein VI.

Það vill gleymast í umræðu um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum, að málið snýst ekki bara um tölur, hvort heldur er íbúafjölda eða krónur. Það snýst um einstaklinga, um lífsgæði, um samfellu byggðar í landinu og ekki síst um virðingu. Virðingu fyrir fólki, virðingu fyrir sögu, virðingu fyrir rétti einstaklinga, sjálfsvirðingu samfélaga. Að treysta ekki íbúum til að hafa sjálfir vit á hvort rétt sé að sameina þeirra sveitarfélag öðru er hrokafullt virðingarleysi. Markmið þingsályktunartillögu um sveitarfélög fara ágætlega saman með sýn íbúa um bjartari framtíð, því er þessi valdhroki óþarfur og skaðlegur.

Þó Tjörnesingar séu ekki fjölmennt samfélag, eru þar sterkar hefðir. Þar býr fólk sem í áratugi hefur af óeigingirni og fyrir lítið endurgjald, unnið heilshugar fyrir sitt samfélag. Sýnt ráðdeild í rekstri og vel kunnað sínum fótum forráð. Sveitarfélagið hefur borið ábyrgð á þjónustu við íbúa, hvort sem hún hefur verið aðkeypt eða veitt af því sjálfu. Íbúar hafa lifað sáttir við sitt fyrirkomulag, það hefur að heldur ekki verið baggi á nágrönnum eða þjóðinni í heild. Tjörnesingar eru ekki margir, en þeir eru einstaklingar, Íslendingar, og hreint ekki ómerkilegri en aðrir.

Þegar talað er um smærri sveitarfélög sem tölur, án þess að gæta að því að á bak við þær tölur er lifandi fólk, er því sýnd bæði óvirðing og hroki. Einn megin styrkleiki smárra samfélaga er samheldni.  Kraftur og vilji til að hlaupa undir bagga þegar þörf er á, lítil krafa um mikla veraldlega umbun fyrir. Það eru margvísleg lífsgæði fólgin í búsetu í litlum samfélögum, s.s. nálægð við náttúru og auðlindir til lands og sjávar. Persónuleg tengsl milli íbúa eru sterk og félagsauður mikill og langvarandi. Ekki skyldi vanmeta þeirra framlag til okkar þjóðfélags, hvort sem horft er til mannauðs eða veraldlegs. 

Fjölbreytni í samfélagsgerð og búsetukostum er einn af styrkleikum okkar góða lands. Við megum ekki sóa þeim fjölbreytileika og þvinga byggðir allar til sömu hátta. Þó óbyggðir heilli marga, er landið þó mun meira virði þar sem byggðin er blómleg og margvísleg. Því ber að virða samfélögin, söguna og hlúa að fjölbreyttri búsetu til framtíðar. Lífsgæði mælast ekki bara í krónum og aurum, hið stóra er ekki endilega betra eða rétthærra en hið smáa. Eitt fegursta blóm sem á Íslandi vex er Gleym-mér-ei, um það trúi ég að fleiri séu mér sammála. Hún er ekki hrópandi á torgum, gnæfir ekki yfir, en hún á samt sinn sess og sína stöðu í okkar flóru.

Með tali um að taka sjálfsákvörðunarrétt af íbúum minni sveitarfélaga með einu pennastriki, er sótt að réttindum þeirra, sjálfsvirðingu og hreinlega lífshamingju. Harkaleg stefna yfirvalda kemur sem köld hrokafull vatnsgusa í andlit þúsunda sem eru sátt við sitt nærsamfélag. Sem eru stolt af sínu byggðarlagi, sögu þess og stöðu, sem hafa hingað til getað horft bjartsýn til framtíðar. Óvarlegt tal þar sem ekki er skeytt um rök eða sannindi, tekur á íbúa margra minni sveitarfélaga. Það brýtur niður sjálfsmynd, það veikir vilja til góðra verka fyrir samfélagið og dregur bjartsýni og þrótt úr þessum samfélögum. 

Þetta gengur þvert gegn meginmarkmiðum þingsályktunartillögu um framtíð sveitarfélagastigsins. Þar er talað um sveitarfélögin sem hornstein lýðræðis og um styrkingu hinna dreifðu byggða til framtíðar. Ég skora á ráðamenn að láta af hrokafullu tali um tölur, þar sem ekki er skeytt um að á bak við þær er lifandi fólk með tilfinningar. Fólk sem hefur rétt til að vera fullgildir þegnar í samfélagi okkar, með sama rétt og hver annar til að hafa áhrif á sína framtíð og sinna byggðarlaga. Lýðræðið endar ekki við einhverja órökstudda tölu, það á að vera allra.

Höfundur er sveitarstjóri Grýtubakkahrepps.


Tengdar fréttir

Lýð­ræðið, lög­fræðin og of­beldið

Í þingsályktunartillögu um málefni sveitarfélaga, er mikið talað um lýðræði, virðingu, sjálfbærni og sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og er það vel.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.