Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Selfoss 36-29 | Haukar hefndu ófaranna frá því í úrslitaeinvíginu

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Tjörvi skoraði ellefu mörk.
Tjörvi skoraði ellefu mörk. vísir/vilhelm
Haukar eru enn taplausir á toppi deildarinnar eftir öruggan sigur á Íslandsmeisturum Selfoss á Ásvöllum í kvöld, 36-29. 

Það var hátt tempó í fyrri hálfleik og mikið skorað en staðan var jöfn eftir fyrsta korterið 9-9. Haukar áttu gott áhlaup í framhaldi af því og í stöðunni 14-11 tók Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, leikhlé. Það skilaði ekki miklu, Selfyssingar eltu það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og voru þremur mörkum undir að honum loknum, 19-16. 

Markverðir liðanna sýndu ekki mikið í fyrri hálfleik og fóru á bekkinn í þeim síðari. Grétar Ari Guðjónsson varði 4 bolta í marki Hauka á móti 5 boltum frá Sölva Ólafssyni. 

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn að krafti og minnkuðu leikinn niður í eitt mark, 21-20. Lengra komust þeir ekki, Haukarnir náðu að loka á Hauk Þrastarson lungað af seinni hálfleik og sóknarleikur Selfoss hrundi í kjölfarið. Heimamenn refsuðu með hröðum sóknum og leiddu með fimm mörkum þegar 10 mínútur voru til leiks loka, 29-24. 

Andri Scheving varði næstu fimm skot Selfyssinga, það dró allt sjálfstraust úr þeim og þeir gáfust upp. Heimamenn héldu áfram að bæta í forystuna og unnu að lokum sjö marka sigur, 36-29. 

Af hverju unnu Haukar?  

Þeir voru betri aðilinn á öllum vígstöðvum í dag. Sóknarlega voru þeir frábærir og fengu gott framlag frá sínum útileikmönnum.

Hverjir stóðu upp úr?

Tjörvi Þorgeirsson átti virkilega góðan leik í liði Hauka, hann skoraði 11 mörk ásamt því að skapa mikið sóknarlega fyrir mennina í kringum sig eins og venjulega. Atli Már Báruson átti einnig góðan dag, hann skoraði 6 mörk og skapaði jafn mörg færi. Hann var einnig atkvæðamestur í vörninni. 

Andri Scheving Sigmarsson kom inn í markið í seinni hálfleik og lokaði markinu. Hann varði 14 skot og var með tæpa 50% markvörslu.

Í liði Selfoss var Haukur Þrastarson atkvæðamestur að vanda, hann var með 7 mörk og 6 sköpuð færi í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera í barnapössun hjá Ásgeiri Erni Hallgrímssyni frá fyrstu mínútu leiks. Hann endaði markahæstur gestanna með 10 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Vörn og markvarsla liðanna var ekki til afspurnar í fyrri hálfleik. Varnarleikur Hauka lagaðist í þeim síðari en lítið gerðist hjá Selfyssingum. Selfoss átti erfitt sóknarlega á köflum. 

Hvað er framundan? 

Haukarnir fá aftur heimaleik en um næstu helgi mæta þeir Fjölni, Selfoss fær þá Fram í heimsókn. 

 

Gunnar Magnússon, ángæður með tímabilið sem af ervísir/bára
Gunni Magg: Þú stoppar hann ekki, en það er hægt að halda honum niðri

„Mér fannst við frábærir í dag“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.  

„Eina sem ég er ósáttur við er að við hlupum illa til baka til að byrja með. Við löguðum það hægt og rólega. Svo náðum við, á köflum, að halda Hauki aðeins niðri. Þú stoppar hann ekki, en það er hægt að halda honum niðri“

„Við náðum forskotinu í fyrri hálfleik þegar við náðum að stoppa hann aðeins. Svo náðum við að stoppa hann betur í seinni hálfleik og þá náðum við að keyra yfir þá“ sagði Gunni um það hvernig þeir unnu leikinn, það var með því að stoppa besta leikmann deildarinnar, Hauk Þrastarson 

„Við eyddum góðum tíma í að undirbúa þetta, að stoppa Hauk, við stoppuðum hann reyndar ekki hann skoraði 10 mörk“ 

„Ég er ekki ánægður með það að hafa fengið á mig 29 mörk en sóknarleikurinn var bara stórkostlegur í kvöld og Tjörvi frábær.“ sagði Gunni sem var heilt yfir virkilega ánægður með leikinn í dag og hrósar Tjörva Þorgeirssyni sem átti stórkostlegan leik

Gunnar vill ekki gefa það út að þeir séu besta liðið í deildinni en þeir eru engu að síður eina taplausa liðið eftir 9 umferðir. 

„Við skulum taka þetta saman eftir fyrri umferðina. Það eru ennþá tveir leikir í það. Ég er ánægður með stigasöfnunina, en við getum ennþá betur“

 

Grímur er ekki töframaðurvísir/daníel þór
Grímur: Ég töfra ekki kanínur upp úr hatti

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, var ósáttur við leik sinna manna í dag eftir 7 marka tap á Ásvöllum. Hann segir þetta skammarlegt.

„Við vorum alls ekki nógu góðir. Við vorum á hælunum varnarlega, þú vinnur ekki Hauka þannig“ 

„Þetta er nátturlega ekki boðlegt, ég þarf að fara yfir þetta með strákunum. Að sýna ekki ákefð og tempó í svona leik er skammarlegt“ sagði Grímur hundfúll með frammistöðu sinna manna í dag

„Haukarnir voru bara betri á öllum sviðum, svo einfalt er það“ 

Haukur Þrastarson var sem fyrr atkvæðamestur í liði Selfoss, Haukarnir reyndu hvað þeir gátu að loka á hann og tókst það á köflum. Grímur viðurkennir að hann þurfi virkilega á framlagi frá öðrum leikmönnum sóknarlega

„Jú ég þarf það en menn verða líka að stíga upp sjálfir. Ég töfra ekki kanínur upp úr hatti. Menn verða að sækja á markið og hafa hjarta í það að taka af skarið.“ sagði Grímur að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.