Körfubolti

Harden í essinu sínu í sigri Houston

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harden skoraði 47 stig gegn Los Angeles Clippers.
Harden skoraði 47 stig gegn Los Angeles Clippers. vísir/getty

James Harden skoraði 47 stig þegar Houston Rockets vann Los Angeles Clippers, 102-93, í NBA-deildinni í nótt. Þetta var fimmti sigur Houston í röð en liðið er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Harden hitti úr sjö af 13 þriggja stiga skotum sínum og skoraði 16 stig af vítalínunni. Hann skoraði 17 stig í 4. leikhluta. Kawhi Leonard var atkvæðamestur hjá Clippers með 26 stig og tólf fráköst.


Sex aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Los Angeles Lakers átti ekki í miklum vandræðum með að leggja vængbrotið lið Golden State Warriors að velli, 120-94.

LeBron James skoraði 23 stig og gaf tólf stoðsendingar fyrir Lakers sem er á toppnum í Vesturdeildinni. Kyle Kuzma skoraði 22 stig og JaVale McGee var með 18 stig og 17 fráköst.

Boston Celtics vann sinn níunda leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Washington Wizards, 140-133. Boston er á toppi Austurdeildarinnar.

Sjö leikmenn Boston skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Kemba Walker var stigahæstur með 25 stig. Bradley Beal skoraði 44 stig fyrir Washington.

Meistarar Toronto Raptors unnu Portland Trail Blazers, 106-114. Pascal Siakam skoraði 36 stig fyrir Toronto og Fred VanVleet 30.

Rodney Hood skoraði 25 stig fyrir Portland en í fyrsta sinn í þrjú ár skoraði Damian Lillard minna en tíu stig í leik.

Úrslitin í nótt:
Houston 102-93 LA Clippers
LA Lakers 120-94 Golden State
Boston 140-133 Washington
Portland 106-114 Toronto
Charlotte 117-119 Memphis
Orlando 112-97 Philadelphia
Minnesota 129-114 San Antonio

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.