Skoðun

Þörf á gagnsæi

Davíð Stefánsson skrifar
Flestum var brugðið við frétt vikunnar um Samherjamálið. Málið hverfist um viðamikinn gagnaleka og uppljóstrun fyrrverandi starfsmanns félagsins um greiðslur hundraða milljóna í mútur til erlendra ráðamanna fyrir aðgang að þarlendum fiskveiðikvótum. Starfsmaðurinn sagði sig og fyrirtækið hafa stundað skipulagða glæpastarfsemi til að græða á auðlindum fátæks lands og mergsjúga fjármuni þaðan. Það eru mjög alvarlegar ásakanir. Allt frá árinu 1998 hefur verið saknæmt að bera mútur á erlenda opinbera starfsmenn og lögsaga í slíkum málum er víðtæk. Viðurlög eru hörð við mútubrotum

Flestir hljóta að vera sammála því að Samherjamálið sæti ítarlegri skoðun þar til bærra yfirvalda. Dómar eru hvorki kveðnir upp í fjölmiðlum né í þingsal. Málið er komið til rannsóknar héraðssaksóknara og nauðsynlegt að hann fái ráðrúm og fjármuni til ítarlegrar rannsóknar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur verið í forystu í þekkingaruppbyggingu víða um heim. Útflutningur kraftmikilla fyrirtækja í útvegi og tækniþjónustu sjávarútvegs hefur ekki einungis leitt lífskjör hér heldur víðar. Þessi útflutningur hvílir á góðum samskiptum. Þau hvíla á trúverðugleika og trausti.

Þessir atburðir og umfjöllun um þá á innlendum sem erlendum vettvangi hljóta að vera mikið áhyggjuefni fyrir íslenskt athafnalíf. Heiðarleiki, traust og gott orðspor er mikilvæg auðlind, ekki síður en orka landsins eða fiskimið. Mikilvægt er að Íslendingar skynji ábyrgð sína sem forystuþjóð í sjávarútvegi og leiti allra leiða til að svona atburðir endurtaki sig ekki.

Skráning sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði felur í sér leiðarljós gagnsæis, aga og ríkar kröfur um vandaða starfshætti. Þá getur skráning aukið kröfur um fjárhagsupplýsingar, skýrt betur hagsmunatengsl og bætt þannig eftirlit.

Það er skynsamlegt – og líklegra til samfélagssáttar og betri starfshátta – að fyrirtæki sem sýsla með stærstu auðlindir þjóðarinnar og geta haft mikil áhrif á orðspor hennar, skoði dreifða eignaraðild og skráningu á hlutabréfamarkaði.

Í stað krafna um frystingu fyrirtækjaeigna og upphrópana um spillingu og ógagnsæi ættu menn að hvetja til þess að leið markaðarins sé nýtt til að skapa meira traust og setja fyrirtæki sem þessi á markað. Það færi betur á því að atvinnulífið tæki þannig frumkvæði fremur en að löggjafinn neyði menn til betri starfshátta.




Skoðun

Sjá meira


×