Formúla 1

Uppgjör: Hamilton tryggði sér titilinn í spennandi kappakstri

Bragi Þórðarson skrifar
Bottas fagnaði sigri í kvöldsólinni í Texas er Hamilton fagnaði sínum sjötta titli.
Bottas fagnaði sigri í kvöldsólinni í Texas er Hamilton fagnaði sínum sjötta titli. Getty
Valtteri Bottas stóð uppi sem sigurvegar í bandaríska Formúlu 1 kappakstrinum um helgina. Bottas þurfti á sigri að halda til að eiga möguleika á heimsmeistaratitlinum en liðsfélagi hans, Lewis Hamtilon endaði annar og tryggði sér því sinn sjötta titil í greininni.

Bottas byrjaði á ráspól en Hamilton aðeins fimmti eftir slæma tímatöku hjá Bretanum. ,,Ég horfði ekkert á bílinn fyrir framan, ég hafði bara augu á fyrsta sætinu'' sagði Hamilton um ræsinguna.

Lewis var strax á fyrsta hring kominn upp í þriðja sætið eftir að hafa tekið fram úr báðum Ferrari bílunum sem byrjuðu kappaksturinn hræðilega.

Óskarsverðlaunahafinn Matthew McConaughey fagnaði titlinum með Lewis.Getty
Leclerc í einskinsmannslandi

Charles Leclerc hefur átt góðu gengi að fagna á síðari hluta tímabilsins en lítið gekk hjá Mónakó búanum í Bandaríkjunum um helgina.

Leclerc ræsti fjórði og endaði á sama stað eftir hringina 56 sem eknir voru á Circuit of the Americas brautinni í Texas. Charles var aldrei nálægt því að keppa um sæti á verðlaunapalli og virtist Ferrari bíllinn eiga langt í land.

Það fór ver hjá liðsfélaga Leclerc, Sebastian Vettel. Þjóðverjinn var í tómu barsli með bíl sinn fyrstu átta hringi keppninnar og kom í ljós að fjöðrunarbúnaður bílsins var skemmdur. Á áttunda hring gaf spyrna sig hægra megin að aftan og varð Vettel frá að hverfa.

Nú þegar Hamilton er búinn að tryggja sér titilinn færast augun að slagnum um þriðja sætið í mótinu. Bottas er öruggur með annað sætið en Leclerc, Verstappen og Vettel berjast um það þriðja.

Aðeins 19 stig skilja að ökumennina þrjá þegar tvær keppnir eru eftir. Næsta umferð fer fram í Brasilíu eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×