Leikjavísir

Call of Duty: Modern Warfare - Besti COD í langan tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Call of Duty hefur fundið rætur sínar á nýjan leik og fela þær að mestu í sér að skjóta vonda Rússa.
Call of Duty hefur fundið rætur sínar á nýjan leik og fela þær að mestu í sér að skjóta vonda Rússa.
Það er ýmislegt sem segja má um nýjasta Call of Duty-leikinn. Það fyrsta er að hann er sá besti í langan tíma. Með Modern Warfare vill Activision endurvekja MW-seríuna og er óhætt að segja að það hafi heppnast mjög vel.

Call of Duty hefur fundið rætur sínar á nýjan leik og fela þær að mestu í sér að skjóta vonda Rússa (Rússar sjálfir eru ekki ánægðir með það) og hryðjuverkamenn frá Mið-Austurlöndum þar inn á milli. Modern Warfare er besti Call of Duty leikurinn sem ég hef spilað um árabil en þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég hafi spilað hvern einasta Call of Duty leik sem hefur verið gefinn út.

Einspilun leiksins finnst mér alveg frábær að þessu sinni. Þar að auki gera þó nokkrar breytingar í fjölspilun þann hluta leiksins einnig betri en áður.

Saga einspilunar COD:MW snýr í stuttu máli að hryðjuverkasamtökunum al-Qatala, uppreisnarmönnum í hinu ímyndaða ríki Urzikistan, Rússum sem koma verulega illa fram við íbúa Urzikistan og bandarískum og breskum hermönnum.

Inn í þetta kraðak bætast efnavopn og ýmis ódæði á alla kanta. Fullt af ódæðum og spilarar þurfa sjálfir að fremja nokkur.

Þetta er ekkert frumlegasta saga allra tíma. Hún er hins vegar fín og spilunin er einstaklega skemmtileg. Það koma upp fullt af frábærum atvikum við spilun sögu leiksins og sum borð eru sérlega frábær. Hasarinn er alltaf mikill, eins og oftast í COD og sömuleiðis er mikið um óvæntar vendingar.

COD hefur lengi lagt línurnar varðandi gæði skotleikja og hér verður engin breyting á. Byssur MW eru góðar. Hljóðið í þeim er flott og raunverulegt. Sem skotleikur er COD:MW í hæsta gæðaflokki.

Leikurinn keyrir á nýrri vél og það skilar sér sömuleiðis vel þar sem hann lítur mjög vel út.

Hinn æðislegi Major Price snýr aftur í nýrri útgáfu.Vísir/Activision
Einspilunarhluti leiksins virðist snúast að miklu leyti um það að sýna spilurum hve hrottaleg stríð eru. Inn á milli er okkur þó sýnt hve rosalega flott og töff stríð eru þegar við fáum að beita nýjustu vopnum og græjum gegn óvinum okkar. Það er alltaf einhver skrítin lína gengin í COD-leikjum þar sem við eigum að taka leikina alvarlega á köflum og á öðrum eigum við að míga á okkur af spenningi yfir einhverjum nýjum vopnum og sprengingum.

Spilarar geta tekið þátt í pyntingum og slysast til að skjóta almenna borgara, svo eitthvað sé nefnt. Það er enginn saklaus í stríði.

Gungur

Nú hef ég lengi verið sérlegur áhugamaður um barnadráp í tölvuleikjum og þá sérstaklega það hvað framleiðendur tölvuleikja forðast það fram í rauðan dauðann að gefa spilurum möguleika á því að drepa börn, þegar það á við sögusvið og þema leikja. Ég er ekki að reyna að hvetja til barnadrápa, svo það sé tekið fram.

Spilarar fá tækifæri á því að drepa barn í einu besta borði COD:MW en þó það eigi svo sem ágætlega við sögusviðið á þessum stað leiksins, er frekar eins og það sé verið að mana mann til að skjóta barnið (Staðfest). Ég hef alltaf verið viðkvæmur gagnvart þrýstingi sem þessum. Þannig að…

Upp komu skilaboð um að þetta mætti ekki og ég var látinn reyna þetta aftur. Barnið lifði þá tilraun af þar sem ég nennti ekki að halda þessu áfram. Maður kemst samt upp með að skjóta móður barnsins án vandræða, þó hún sé óvopnuð. Gungur!

Ekkert kjaftæði

Einspilun er þó ekki mikilvægasti hluti Call of Duty leikjanna. Fjölspilunin hefur spilað stærri rullu í leikjunum og að þessu sinni hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem mér finnst bæta upplifunina verulega.

Í fyrsta lagi, þá er ekkert kjaftæði í þessum leik. Það eru engir gaurar hlaupandi um veggi, verandi ósýnilegir eða eitthvað slíkt rugl. Það þykir mér mjög jákvætt. Ég hef þó aldrei verið mikill aðdáandi þeirra bónusa sem bestu spilarar COD fá í formi loftárása og annarra drápsaðferða. Það er enn til staðar og mér finnst það bara þvælast fyrir.

Í Ground War etja 64 spilarar kappi á stóru svæði. Markmiðið er að halda fleiri fánum en óvinirnir í lengri tíma. Þar er einnig hægt að notast við skriðdreka og svipar Ground War verulega til Battlefield leikjanna. Það er þó alls ekki slæmt. Það er auðvelt að skemmta sér vel í Ground War og hasarinn er mjög mikill.

Þeir sem vilja meira næði geta spilað Gunfight. Þar spila fjórir aðilar í tveimur liðum á litlum svæðum. Hver lota er einungis 40 sekúndur og líf spilara endurnýjar sig ekki. Spilarar fá vopn af handahófi og þurfa að vera fljótir að hugsa. Gunfight er nokkuð skemmtilegt og áhugavert.

Að öðru leiti eru spilunarmöguleikar í fjölspilun að lang mestu eins og eldri COD-leikjum.

Vísir/Activision

Samantekt-ish

Ég er ekki viss um hvernig best er að taka þessa umfjöllun saman. Call of Duty: Modern Warfare er góður og skemmtilegur, eins og flestir COD-leikir. Það eru þó nokkrar breytingar gerðar sem gera hann frábrugðin og betri en síðustu leikir seríunnar. Hann lítur vel út og hljómar frábærlega.

Það er langt síðan einspilunin hefur verið jafn skemmtileg nýir spilunarmöguleikar í fjölspilun gera mikið fyrir hana.

Ef þú hefur verið að taka þér pásu frá COD er Modern Warfare kjörið tækifæri til að snúa aftur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×