Handbolti

Stór­leikur hjá Sveini og sigur hjá Ís­lendinga­liðinu Ribe-Esb­jerg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sveinn í leik með ÍR á síðustu leiktíð.
Sveinn í leik með ÍR á síðustu leiktíð. vísir/bára
Sveinn Jóhannsson átti virkilega góðan leik fyrir SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni er liðið gerði jafntefli, 27-27, við Lemvig-Thyborøn.

SönderjyskE var þremur mörkum undir í hálfleik en náðu að koma til baka en Sveinn skoraði einmitt jöfnunarmarkið er tæpar tvær mínútur voru eftir.

Alls skoraði Sveinn sex mörk úr sjö skotum en Arnar Birkir Hálfdánsson bætti við einu marki. SönderjyskE er í 3. sætinu með ellefu stig eftir níu leiki.

Annað Íslendingalið, Ribe-Esbjerg, er hins vegar í öðru sætinu með þrettán stigur eftir öruggan átta marka sigur á botnliði Nordsjælland, 32-24.

Rúnar Kárason gerði þrjú mörk en dældi hins vegar út stoðsendingum. Alls gaf Rúnar sex stoðsendingar. Gunnar Steinn Jónsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar en Daníel Þór Ingason er meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×