Handbolti

Janus skoraði fjögur síðustu mörk Aalborg í sigri á þýsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus dró Aalborg að landi gegn Flensburg.
Janus dró Aalborg að landi gegn Flensburg. vísir/getty

Janus Daði Smárason átti stórleik þegar Aalborg vann þriggja marka sigur á Flensburg, 31-28, í Meistaradeild Evrópu í gær.

Janus skoraði sjö mörk í leiknum og var næstmarkahæstur í liði Aalborg á eftir hornamanninum Sebastian Barthold sem gerði átta mörk.

Janus var sérstaklega drjúgur á lokakaflanum og skoraði fjögur síðustu mörk dönsku meistaranna í leiknum.

Barthold kom Aalborg í 27-23 með marki úr vítakasti á 49. mínútu. Þýsku meistararnir svöruðu með fjórum mörkum í röð og þegar sex mínútur voru eftir var staðan jöfn, 27-27.

Þá tók Janus til sinna ráða. Hann kom Aalborg í 28-27 en Flensburg jafnaði að bragði. Selfyssingurinn skoraði svo þrjú síðustu mörk leiksins og átti hvað stærstan þátt í að Aalborg landaði sigri á þýsku meisturunum.


Fyrir leikinn gegn Flensburg hafði Janus aðeins skorað fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum Aalborg í Meistaradeildinni. Hann er nú kominn með tólf mörk í keppninni.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem er í 3. sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með átta stig, jafn mörg og Barcelona og Paris Saint-Germain sem eru í tveimur efstu sætunum.

Janus er í íslenska landsliðinu sem mætir því sænska í tveimur vináttulandsleikjum á næstu dögum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.