Körfubolti

Mest spennandi nýliði NBA í langan tíma missir af byrjun tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zion Williamson.
Zion Williamson. Getty/Jonathan Bachman
Körfuboltaáhugafólk hefur beðið spennt eftir því að sjá nýliðann Zion Williamson spreyta sig meðal þeirra bestu í NBA-deildinni í körfubolta. NBA-deildin hefst í kvöld en þar verður enginn Zion sem byrjar tímabilið á meiðslalistanum.Zion Williamson fór í gær í aðgerð á hné eftir að hann meiddist á liðþófa á undirbúningstímabilinu.  Williamson verður frá í sex til átta vikur og gæti misst af allt að 30 fyrstu leikjum New Orleans Pelicans.New Orleans Pelicans valdi hann fyrstan í nýliðavalinu í sumar en það var enginn vafi á því að hann færi fyrstur.Zion Williamson er fyrir löngu orðinn einn þekktasti íþróttamaður Bandaríkjanna þrátt fyrir að hafa ekki spilað leik sem atvinnumaður. Hann var aðeins í eitt ár hjá Duke háskólanum en hafði áður orðið stjarna á samfélags- og netmiðlum fyrir stórkostlega tilþrif sín á körfuboltavellinum í menntaskóla.Á eina tímabilinu sínu með Duke þá var Zion Williamson með 22,6 stig að meðaltali í leik. Hann er stór og mikill strákur en með gríðarlegan sprengikraft. Þá er hann mjög góður í körfubolta líka.Zion Williamson stóð sig vel á undirbúningstímabilinu og því var það mjög svekkjandi fyrir marga þegar hann meiddist.Það hafa hins vegar margir af því áhyggjur hvort svona stór og mikill skrokkur geti ráðið við álagið í NBA-deildinni og þessi óheppilega byrjun ýtir vissulega undir þær raddir.Fyrsti leikur New Orleans Pelicans er í kvöld á móti NBA-meisturum Toronto Raptors en þarna átti Zion að taka sín fyrstu skref á móti sjálfum meisturunum. Hinn leikur kvöldsins er á milli Los Angeles liðanna Lakers og Clippers.

Tengd skjöl

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.