Skoðun

Tómhentur af fæðingardeild

Haukur Örn Birgisson skrifar
Í síðustu viku eignaðist ég tvíburadrengi og í síðustu viku missti ég tvíburadrengi. Eineggja létust þeir í ljúfum móðurkviði eftir fimm og hálfs mánaðar legu. Þegar ég hélt að við værum komin fyrir vind þá hætti lífið í maganum. Fyrirvaralaust var fótunum kippt undan. Það var sárt að horfa á þá, liggjandi í vöggu sinni, og hugsa til alls þess sem við þremenningarnir fórum á mis við.

Ég hefði viljað fá að kynnast þeim.

Ég hefði viljað fá að sjá þá koma í heiminn undir öðrum kringumstæðum.

Ég hefði viljað fá að heyra þá gráta í fyrsta sinn.

Ég hefði viljað fá að fara með þá heim af fæðingardeildinni í stað þess að skilja þá þar eftir.

Ég hefði viljað fá að sjá þá taka sín fyrstu skref, segja sín fyrstu orð.

Ég hefði viljað fá að kenna þeim að hjóla, hvetja þá áfram þegar þeir detta.

Ég hefði viljað fá að sjá þá fara í taugarnar á eldri systkinum sínum.

Ég hefði viljað fá að sjá þá að morgni fyrsta skóladags.

Ég hefði viljað fá að ruglast á þeim.

Ég hefði viljað fá að fara með þeim í golf.

Ég hefði viljað fá að sjá þá útskrifast úr skóla.

Ég hefði viljað fá að sjá þá fara á fyrstu stefnumótin.

Ég hefði viljað fá að vera svaramaður þeirra á brúðkaupsdaginn.

Ég hefði viljað fá að hitta börnin þeirra.

Ég hefði viljað fá að fara í taugarnar á þeim á mínum gamals aldri.

Mest af öllu hefði ég viljað fá að kveðja þá á mínum eigin dánarbeð, í stað þeirra.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×