Körfubolti

Ólafur: Ef ég hefði hey-að hefði ég örugglega fengið villu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur skoraði 16 stig og tók 8 fráköst.
Ólafur skoraði 16 stig og tók 8 fráköst. vísir/bára
Ólafur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur var stoltur af sínu liði en var óhress með ýmislegt hjá dómurum leiksins í Suðurnesjaslagnum í kvöld. Keflvíkingar höfðu betur í spennandi leik, 97-89.

„Mjög sáttur með frammistöðuna hjá okkur í dag. Við erum bara flottir og nálægt því að vinna þá. Það vantaði einhver atriði í dag og þau féllu ekki með okkur, þess vegna unnu þeir,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir leikinn.

Grindvíkingar voru ósáttir með dómarana á löngum köflum og sérstaklega undir lokin.

„Það skiptir svo sem engu máli hvað maður segir um þetta. Eggert (Aðalsteinsson) dæmir villu á Dag þar sem Dagur snýr bakinu í hann. Hörður Axel snýr höndunum að mér þannig að það er engin leið að Eggert geti séð þetta atvik. Hann flautar bara af því að hann segir „hey“ og það er of mikið."

„Stuttu seinna fer ég upp og það er hakkað í höndina á mér og ég hef ekki lagt það í vana minn að „hey-a“. Ef ég hefði „hey-að“ þá hefði ég örugglega fengið villu. Einn dómarinn er auðvitað nýr og allt það, en ég held að hann hafi dæmt tvær villur hér í dag. Ég er ekki að kenna þeim um þetta en hann stendur undir körfunni þegar ég er hakkaður en hefur ekki pung í að dæma,“ sagði ósáttur Ólafur.

Grindavík er með tvö töp eftir tvær umferðir en Ólafur lítur björtum augum á hlutina.

„Það er margt sem við erum að bæta. Mér fannst við vera betri varnarlega en svo komu kaflar inn á milli, sérstaklega undir lokin, þá voru menn einhvern veginn úti um allt að reyna að ná boltanum. Þá komu auðveldar körfur fyrir þá.“

„Við töluðum um eftir síðasta leik að sýna agaðri sóknarleik, við þyrftum líka að vera agaðri í varnarleik. Nú erum við að spila bara á Íslendingum og mér finnst við vera að standa vel í þriggja útlendinga liði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×