Skoðun

Á Reykja­lundi er eflandi um­hverfi, þar sem gott er að vinna

Jónína Sigurgeirsdóttir skrifar
Mig langar að skrifa örfá orð um vinnustaðinn minn, þar sem ég hef starfað í rúm 30 ár, sem er endurhæfingarmiðstöðin á Reykjalundi. Þar sem ég byrjaði sem almennur hjúkrunarfræðingur, aflaði mér síðan sérfræðimenntunar og starfa nú sem gæðastjóri. Mér finnst, eins og áreiðanlega flestum, sárt að horfa á fréttirnar sem birst hafa um vinnustaðinn minn síðustu daga. Án þess að ég vilji gera lítið úr upplifun þeirra sem hafa tjáð sig mest og vísað hefur verið til í fjölmiðlum sem talsmanna starfsfólks Reykjalundar, þá langar mig að lýsa örlítið annarri sýn á málið.

Mér finnst mjög gott að vinna á Reykjalundi. Í ljósi þess að ég á þar marga góða samstarfsfélaga sem eru með svipaðan starfsaldur og ég, eða lengri, þykist ég vita að sé ekki ein um þá skoðun. Það er kannski skiljanlegt að þegar svo harðar deilur verða á milli þeirra sem stýra stofnuninni, á sviði lækninga annars vegar og stjórnunar hins vegar, bregði fólki við og það verði smeykt um hvort það verði ekki jafn gott og áður að vinna á Reykjalundi. Er það raunveruleg hætta? Nei, ég hygg að þar verði fyrirsagnir fjölmiðla sem betur fer ekki sannspáar. Þau ágreiningsefni sem nefnd hafa verið eru svo sem ekki ný af nálinni og umræðan um þau mun sjálfsagt halda áfram. Ég tel samt að því öfluga fólki sem starfað hefur á Reykjalundi (og mér heyrist að yfirgnæfandi meirihluti hyggist halda því áfram), sé treystandi til að vinna vel úr þeim málum.

Um leið og ég vil persónulega þakka fyrri forstjóra og framkvæmdarstjóra lækninga fyrir liðin ár, býð ég Ólaf Þór Ævarsson velkominn í stöðu framkvæmdarstjóra lækninga og Herdísi Gunnarsdóttur í stöðu forstjóra. Þá er Reykjalundur með fullskipaða framkvæmdarstjórn og mér finnst sjálfri, og ég veit um fleiri sem eru mér sammála, að nú sé lag að þétta raðirnar. Ég dáist að því hvernig starfsmenn Reykjalundar hafa að undanförnu haldið áfram að sinna störfum sínum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við, fagfólkið í endurhæfingu, munum halda áfram að sýna hvert öðru og skjólstæðingum okkar virðingu, um leið og við tökumst við það brýna verkefni að sinna endurhæfingu þeirra sem þurfa á henni að halda.

Með vinsemd,

Jónína Sigurgeirsdóttir, sérfræðingur í endurhæfingarhjúkrun og gæðastjóri Reykjalundar




Skoðun

Sjá meira


×