Ingólfur Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins Carbon Recycling International, sem sérhæfir sig í búnaði til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti og vistvæna efnavöru úr kolefni og vetni. Þá hefur Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir verið ráðin aðstoðarforstjóri fyrirtækisins.
Greint er frá breytingunum í yfirstjórn CRI í tilkynningu frá félaginu. Þar er þess getið að Ingólfur hafi setið í stjórn félagsins frá því í fyrra en tekið við forstjórastöðunni af Sindra Sindrasyni í júní síðastliðnum. Margrét hóf störf við CRI árið 2015 og hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins frá árinu 2017.
Í tilkynningunni er ferill þeirra beggja jafnframt rakinn. Ingólfur er rekstrarhagfræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, auk þess sem hann var einn af stofnendum iKorts og framkvæmdastjóri þess um tíma. Ingólfur einnig setið í stjórnum fyrirtækja og sjóða og situr nú meðal annars í stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna og stjórn Eyris Invest.
Margrét er iðnaðarverkfræðingur og lauk jafnframt M.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. prófi í orkukerfum og orkustjórnun frá School of Renewable Energy Science. Áður en hún hóf störf hjá CRI starfaði hún hjá Landsbankanum og Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns (nú Mannvit) með áherslu á stjórnun, fjármögnun og orkutengd verkefni. Hún hefur einnig setið í ýmsum ráðum og stjórnum í atvinnulífinu.
