Körfubolti

Það er í blóði KR-inga að ætlast til að vinna titla

Kristinn Páll Teitsson skrifar
KR-ingar fagna Íslandsmeistaratitli.
KR-ingar fagna Íslandsmeistaratitli. Fréttablaðið
Samkvæmt árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna verða KR-ingar Íslandsmeistarar sjöunda árið í röð en spáin var opinberuð í gær. KR hefur haft heljartak á meistaratitlinum í karlaflokki undanfarin ár og unnið meistaratitilinn síðustu sex ár og níu sinnum á síðustu fjórtán árum.

KR fékk vænan liðsstyrk í sumar þegar bræðurnir Jakob Örn og Matthías Orri Sigurðarson, Brynjar Þór Björnsson og Michael Craion komu aftur í KR. Pavel Ermolinskij er horfinn á braut og leikur með nágrannafélaginu Val í vetur en ljóst er að KR hefur á að skipa gríðarlega sterku liði sem er byggt upp af heimamönnum sem þekkja vart neitt annað en að taka á móti Íslandsmeistaratitli á vorin.

„Það er í blóðinu í KR að ætlast til að vinna titla og við þekkjum ekkert annað. Þetta kemur í raun ekkert á óvart,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, aðspurður út í árlegu spána sem var birt í gær.

„Það verða öll lið deildarinnar vel mönnuð sem er afleiðing Bosman-reglunnar. Það styrkir deildina svakalega, gæðin eru orðin meiri og um leið kröfurnar. Ég á ekki von á því að eitthvert eitt lið verði í sérflokki í vetur þó svo að umræðan sé svoleiðis,“ segir Ingi sem segir enn hungur í mönnum eftir sigurgöngu síðustu ára.

„Það er mikið hungur í hópnum og metnaður fyrir því að ná í Íslandsmeistaratitilinn í vor. Það er auðvelt að detta í þægindaramma og gleyma sér en þessi leikmannahópur mun ekki leyfa því að gerast.“

Ef spáin rætist munu nýliðarnir í Þór Akureyri og Fjölnir kveðja deildina í vor eftir stutt stopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×