Bíó og sjónvarp

Gera nýja kvikmynd um Línu langsokk

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Lína langsokkur árið 1968
Lína langsokkur árið 1968 Getty
Í tilefni þess að á næsta ári verða 75 ár liðin frá því að fyrsta bókin um Línu langsokk kom út hafa þrjú fyrirtæki Studiocanal, Heyday films og Astrid Lindgren Company ákveðið búa til nýja kvikmynd um sterkustu stelpu í heimi. Undirbúningur við kvikmyndina er þegar þegar hafinn.

Úr smiðju Studio Canal er kvikmyndin um Paddington bangsa og þá hefur Heyday tekið þátt í gerð kvikmyndanna um galdrastrákinn Harry Potter, Gravity og Once Upon A Time in Hollywood. Bækurnar um uppátæki og ævintýri Línu langsokk, Tomma og Önnu hafa verið þýddar á tugi tungumála og selst í milljónum upplaga. Bækurnar um hina rauðhærðu og sjálfstæðu Línu, sem lætur oft og tíðum illa að stjórn, halda áfram að skemmta nýjum kynslóðum og á næsta ári í formi kvikmyndar.

Nils Nyman, barnabarn hinnar sænsku Astrid Lindgren og framkvæmdastjóri samnefnds fyrirtækis, segist loksins hafa fundið teymi sem skilur til fulls gildi Línu langsokks. Teymið sé fært um að fanga bæði léttleikann og kímnina en ekki síður hinn alvarlegri tón í verkum ömmu hans.

„Við erum ánægð og spennt að kynna þetta samstarf,“ segir Nyman í fréttatilkynningu um myndina. David Heyman framleiðandi tekur undir þetta og segir að Lína hafi veitt fjölskyldum um allan heim innblástur. Fyrsta bókin um Línu langsokk, sem heitir á íslensku fullu nafni Sigurlína Rúllugardína Nýlendína Krúsimunda Efraímsdóttir langsokkur, kom út þann 26. nóvember árið 1945. 


Tengdar fréttir

Leiðin fram á við er að setja börnin alltaf í öndvegi

Gunnar Helgason, barnabókahöfundur og leikari, hefur framleitt efni fyrir börn í áraraðir og hann er með sterkar skoðanir á málefnum barna hvort sem varðar listir eða önnur mál. Gunnar segir að við eigum að hafa hátt börnum til varnar og samfélaginu til góðs.

Lína Langsokkur í einn dag

Hún Erla María Magnúsdóttir lék titilhlutverk í sýningu Rimaskóla á Línu Langsokki sem sett var upp í skógarrjóðri í liðinni viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×