Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Valur 26-25 | Aftureldingar tryggði sér sigurinn á lokasekúndunni

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/daníel
Það var mikil dramatík í Mosfellsbæ í dag þegar Afturelding og Valur mættust í 5. umferð Olís-deildar karla.

Bæði lið höfðu tapað í síðustu umferð og voru að leitast eftir að komast aftur á beinu brautina og leikurinn var eftir því.

Leikurinn var mjög mikil skemmtun og jafn frá upphafi til enda. Heimamenn spiluðu betur í seinni hálfleik og komu sér upp 4ja marka forystu áður en Valsmenn rönkuðu við sér og þeir komu til baka.

Í seinni hálfleik héldu gestirnir áfram þar sem frá var horfið og náðu að komast 3 mörkum yfir. Þá tók Afturelding aftur við sér og náði að jafna leikinn 21-21 þegar 10 mínútur voru eftir.

Síðustu mínúturnar voru mjög fjörugar og mikið um læti og kannski einhverjar vafasamar ákvarðanir í leiknum.

Þetta datt með Aftureldingu í dag en vel útfærð sókn sem hleypti Guðmundi Árna inn úr horninu endaði með flautumarki. Virkilega sætur sigur hjá heimamönnum en ófarir Valsara halda áfram.

Af hverju vann Afturelding?

Guðmundur Árni Ólafsson, hornamaður Aftureldingar, tryggði þeim sigurinn með marki á lokasekúndunni. Í fyrri hálfleik var Afturelding betra liðið en Valsmenn komu til baka og litu út fyrir að ætla að klára þetta.

Heimamenn náðu síðan að nýta sér seinni hluta seinni hálfleiks til fulls og kláruðu þetta með áðurnefndu marki.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrir utan að tryggja sínum mönnum 2 stig í dag þá átti Guðmundur Árni virkilega góðan dag og skoraði alls 8 mörk í leiknum. Aðrir voru með 4 mörk eða minna. Hjá gestunum skoruðu Anton Rúnarsson og Magnús Óli Magnússon 7 mörk hvor en Magnús fór líka illa með mörg færi.

Markvarslan var ekki sérstök en báðir aðalmarkmennirnir í leiknum voru með 12 varin skot. Daníel Freyr Andrésson var hinsvegar með 46% vörslu eftir að hafa leyst Hreiðar Levý af hólmi í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Valsmenn voru í eltingarleik næstum allan leikinn og það tekur mikla orku. Maður hélt að þeir myndu klára þetta þegar þeir stigu upp í seinni hálfleik en einmitt þá datt leikur liðsins aftur niður.

Varnarleikurinn var ekki góður í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik vantaði líka upp á leik liðsins bæði sóknarlega og varnarlega.

Hvað gerist næst?

Afturelding er með 4 sigra eftir 5 leiki og líta virkilega vel út. Þeir eiga erfiðan leik í Vestmannaeyjum framundan en ÍBV er með fullt hús stiga fyrir þessa umferð.

Valsmenn tapa sínum öðrum leik í röð og þeirra þriðja yfir tímabilið. 3 stig eftir 5 umferðir er ekki nógu gott. Næsti leikur þeirra er gegn Haukum.

Snorri Steinn: Svekkjandi að tapa svona

„Það er svekkjandi að fá á sig sigurmark á síðustu sekúndunni.“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, strax að leik loknum í dag. Hann var augljóslega mjög svekktur að tapa leiknum á lokasekúndunni.

Valsmenn áttu brösugan fyrri hálfleik og taldi Snorri þeir ekki eiga meira skilið úr þeim hálfleik.

„Við áttum ekki meira skilið í fyrri hálfleik og erum heppnir að vera bara einu marki undir. Mér fannst við sýna betri leik í seinni hálfleik og vorum komnir með smá yfirhönd. Þeir ná að snúa þessu sér í vil, þetta var jafn leikur og svekkjandi að tapa svona.“

Leikur liðsins var öllu betri í seinni hálfleik en þeir fóru illa að ráði sínu í góðri stöðu.

„Við vorum komnir nokkrum mörkum yfir og það er bara eins og það er. Að tapa leik með einum marki, þá eru hlutir hér og þar í leiknum sem skipta máli. Eins og er erum við ekki að láta hlutina falla með okkur.“

Byrjun Valsmanna hefur verið slæm, liðið hefur ekki náð í sigur í 4 leikjum í röð og er einungis með 3 stig.

„Auðvitað er ég með áhyggjur, þegar þú vinnur leiki þá er fíflagangur að halda einhverju öðru fram. Byrjunin er ekki góð og það var svo sem vitað að hún gæti orðið erfið og áttum erfitt prógram. Eins og ég sagði áðan þá erum við ekki að láta hlutina falla með okkur og það er áhyggjuefni.“

Einar Andri: Átti von á öllu

Einar Andri Einarsson var mjög ánægður eftir sigurinn í dag.



„Þetta var mjög sætt í lokin, þetta var erfiður seinni hálfleikur en við sýndum alveg stórkostlegan karakter að halda alltaf áfram og ná að kreista þetta út, það er stórkostlegt að fá svona mark á síðustu sekúndu.“

Leikurinn var í járnum allan tímann.

„Tvö jöfn lið og Valsmenn frábærir. Hrikalega vel skipulagðir og flottir en sanngjarnt og ekki sanngjarnt, við unnum leikinn og við tökum það.“

Leikurinn var frábær skemmtun og Einar Andri var fyrst og fremst ánægður að ná að klára þetta verkefni.

„Við lentum 2-3 mörkum undir í byrjun seinni hálfleiks en við héldum alltaf áfram og svo fór Arnór að verja og menn stigu upp í sókninni.“

„Ég átti von á öllu í þessu og sérstaklega í svona jöfnum leikjum. Maður hafði smá áhyggjur en mér leið vel af því að strákarnir voru að leggja allt í þetta. Við stóðum pliktina í síðustu sókninni og það var virkilega gott.“

Afturelding átti erfiða viku eftir fyrsta tap þeirra á tímabilinu og að missa lykilmanninn Gest Ólaf Ingvarsson í meiðsli út tímabilið.

„Við unnum fyrstu þrjá leikina, svo töpuðum við í Krikanum og misstum mann í meiðsli þar, þannig að þetta er búin að vera erfið vika. Ég var ekki viss hvað ég myndi fá frá liðinu, kannski aðeins þungur hausinn. Hvernig strákarnir brugðust við og tækluðu þetta var af mikilli fagmennsku og þeir eiga allt hrós skilið.“ sagði Einar Andri að lokum.

Guðmundur Árni: Skemmtilegast fyrir áhorfendur

Guðmundur Árni Ólafsson var hetja dagsins þegar hann skoraði sigurmark Aftureldingar á lokasekúndu leiksins.

„Þetta var mjög sætt, ég viðurkenni það.“

Skemmtanagildi leiksins var mikið og Guðmundur kom inn á það.

„Þetta er skemmtilegast fyrir áhorfendur líka, æsispenna fram á síðustu sekúndu og skora sigurmarkið úr lokaskotinu það gerist ekki betra.“

Byrjun liðsins er búin að vera góð og Guðmundur er mjög sáttur með uppskeruna.

„8 stig í 5 leikjum, það byrjar mjög vel hjá okkur. Það er alltaf hægt að biðja um fullt hús stiga en það væri svolítið gráðugt, við erum sáttir með 8 stig í 5 leikjum.“

Guðmundur var þá virkilega sáttur með frammistöðuna í dag og sagði að hann hefði verið mjög erfiður.

„Við sýndum baráttu, karakter allan leikinn. Þetta var hörkulið sem við vorum að spila á móti og gáfu okkur alvöru leik. Þetta hefði getað dottið báðum megin en að lokum sanngjarnt.“



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira