Skoðun

Útboðsstefnan þarfnast endurskoðunar

Unnur Pétursdóttir skrifar
Nú á haustdögum hefur verið talsverður titringur innan stéttar sjúkraþjálfara og skjólstæðinga þeirra vegna útboðs Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á þjónustu sjúkraþjálfara á höfuðborgarsvæðinu. Útboðið er byggt á lögum um opinber innkaup frá árinu 2016, en sjúkraþjálfurum var ekki tilkynnt um framkvæmd útboðsins fyrr en í lok ágústmánaðar. Útboðsfrestur var til 17. október. Mikil óánægja hefur verið í röðum sjúkraþjálfara en jafnframt samstaða um að leita lausna til framtíðar. Þess vegna er fagnaðarefni að SÍ hafi nú tekið þá ákvörðun að lengja útboðsfrestinn fram yfir áramót, eða til 15. janúar 2020. Þannig gefst svigrúm til að fara yfir mikilvæga þætti málsins, þar á meðal atriði sem hafa valdið sjúkraþjálfurum og skjólstæðingum þeirra verulegum áhyggjum.

Það ætti öllum að vera ljóst að eitt það mikilvægasta í meðferð langvinnra sjúkdóma og fötlunar er samfella í þjónustu. Að ætla heilbrigðisstarfsfólki að tjalda til þriggja ára í senn, og geta svo ekki tryggt skjólstæðingum áframhaldandi þjónustu því nýtt útboð sé væntanlegt, er afar skaðlegt fyrir slík meðferðarsambönd. Hætta er á að tjón einstaklinga og samfélags verði mikið.

Samkvæmt útboðsgögnum er ekkert mat lagt á gæði umfram lágmarkskröfur. Það er áhyggjuefni fyrir bæði fagið og skjólstæðinga sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarar sem sinnt hafa göngudeildarþjónustu á hjúkrunarheimilum munu ekki uppfylla útboðsskilyrði og því hætt við að þjónustan muni leggjast af. Ekki virðist gert ráð fyrir að nemar í sjúkraþjálfun geti lengur fengið þjálfun á starfsstofum sjúkraþjálfara. Fari svo er um að ræða mikla afturför í klínískri kennslu nema í sjúkraþjálfun. Þá er ekki tekið tillit til þess í útboðslýsingu að húsnæðiskostnaður er misjafn eftir staðsetningu innan höfuðborgarsvæðis. Ef ekki verður gerð breyting á því er líklegt að sjúkraþjálfunarstöðvar hrekjist út á jaðra svæðisins og aðgengi fyrir marga versnar til muna.

Mörgum fleiri spurningum sjúkraþjálfara er enn ósvarað. Nú gefst tækifæri til að fara vel yfir þessi mál og gera betur. Ekki síst er mikilvægt að alþingismenn íhugi stöðuna og velti fyrir sér hvort þetta sé það sem þeir vilja.  Viljum við heilbrigðiskerfi sem byggt er á útboðum? Af hverju fóru lögin um opinber innkaup aldrei til velferðarnefndar Alþingis? Var ef til vill ekki vakin athygli á því að lögin ná ekki aðeins yfir hluti heldur fólk? Er búið að fara í gegnum það hvort verið sé að fara óþarflega íþyngjandi leið í litlu landi? Við þurfum að fá svör við þessum spurningum.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara




Skoðun

Sjá meira


×