Skoðun

Netógnir í nýjum heimi

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Einstaklingar og fyrirtæki hér á landi hafa nú þegar orðið fyrir verulegu fjártjóni og ýmsu öðru tjóni þegar viðkvæmar upplýsingar komast í hendur óviðkomandi. Margt bendir til þess að atvikum af þessu tagi muni halda áfram að fjölga á næstu árum. Talið er að íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir tugmilljarða króna tapi, en aðeins lítið brot er tilkynnt til lögreglu og rannsakað. Fyrirtæki upplifa sig mörg nokkuð varnarlaus gagnvart vaxandi ógnum á netinu. Hið sama má segja um heimilin í landinu sem eru að taka í notkun margs konar snjalltæki, svo sem reykskynjara, hitastilla, öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar og læsingar, sem tengd eru Internetinu með tilheyrandi hættu á að óviðkomandi geti farið að stýra þeim sé ekki gætt fyllsta öryggis.

Októbermánuður er tileinkaður netöryggismálum og hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birt hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning og fyrirtæki á stjornarradid.is/netoryggi til að auðvelda fólki og fyrirtækjum að verjast í netheimum. Einföld atriði geta stóraukið öryggi við notkun snjalltækja svo sem:

  • Að nota ólík lykilorð fyrir mismunandi þjónustur.
  • Að spyrja sölu- eða þjónustuaðila snjalltækja um hvaða öryggisráðstafanir séu mögulegar við uppsetningu og notkun tækjanna.
  • Að breyta upphaflegu lykilorði WiFi-neta og snjalltækja þegar þau eru tekin í notkun.
  • Að breyta persónuverndar- og öryggisstillingum tækis miðað við þarfir og gera þá eiginleika óvirka sem ekki á að nota.
  • Að setja inn öryggisuppfærslur um leið og þær eru fáanlegar.
Nýsamþykkt lög um netöryggismál ásamt nýrri stefnu og aðgerðaáætlun leggja grunn að verkefnum stjórnvalda á þessu sviði. Net- og upplýsingaöryggismál varða samfélagið allt, einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×