Skoðun

Allir tapa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ríkið féll á prófinu, enn eina ferðina, í liðinni viku. Meintu skattsvikamáli heimsfrægrar hljómsveitar var vísað frá dómi, eftir að hafa velkst um í kerfinu í rúmlega 1.300 daga. Mál, sem er eitt af fjölmörgum af sama meiði og hefur orðið til þess að líf ungs og efnilegs fólks er hreinlega sett í biðstöðu á meðan hver stofnunin á fætur annarri finnur því flest til foráttu, efnir til sífellt nýrra rannsókna, kyrrsetur allar þess eignir, leggur á það tugmilljóna sektir og dregur það að lokum fyrir dómstóla.

Mál Sigur Rósar var rannsakað af þremur embættum; ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara. Rannsóknin stóð yfir í 712 daga, eða þar til ákæra var gefin út. Síðan liðu 622 dagar til viðbótar áður en málið komst loks til kasta dómstóla. Á þessum rúmu þremur árum höfðu meðlimir sveitarinnar unað refsingu ríkisskattstjóra um að greiða rúmlega 70 milljónir króna í sekt en næsta stjórnvaldi fannst það ekki nóg og vildi þá bak við lás og slá.

Ítrekað hefur verið bent á að þessi margfalda málsmeðferð er andstæð lögum og gengur í berhögg við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir hvern áfellisdóminn á fætur öðrum þráast íslensk stjórnvöld við að viðurkenna eigin mistök á meðan aðrar þjóðir á borð við Finna, Norðmenn og Svía hafa fyrir löngu breytt fyrirkomulagi sínu á meðferð skattrannsóknarmála með góðum árangri.

„Ég hef engan hitt, hvorki verjanda, sækjanda, né dómara, sem telur að þetta sé í lagi,“ sagði Guðjón St. Marteinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, í þingfestingu sem blaðamaður Fréttablaðsins sat nýverið, þar sem meðferð skattamála var til umræðu.

Þessir ágallar á kerfinu leiða til þess að mál verða aldrei leidd almennilega til lykta og engin niðurstaða fæst í þau. Það einfaldlega tekur því ekki að dæma í þeim enda samræmist meðferð þeirra ekki lögum og er vísað frá jafnharðan. Þetta eru ágallar sem ríkinu hefur verið bent á árum saman, hvort sem er af ráðherrum, embættismönnum, dómurum, skattrannsóknarstjóra eða lögmönnum, og ágallar sem leiða til þess að ríkið brýtur á fólki og þarf síðan að borga því bætur eftir áralanga þrautagöngu þess í gegnum úrelt réttarkerfið.

Þeir sem koma að þessum málum verða að vita að þeir eru með lífsgæði fólks í höndum sér. Sá sem bíður niðurstöðu dómstóla milli vonar og ótta þarf oft að líða óþarfar vítiskvalir vegna seinagangs í réttarkerfinu, sem er ólíðandi og oft og tíðum, líkt og raun hefur borið vitni, með öllu óþarft.

Þessi tregða við að fylgja dómum Mannréttindadómstólsins hefur ekkert upp á sig. Ávinningurinn er enginn og allir tapa. Hættum að gera sömu mistökin aftur og aftur – það borgar sig.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×