Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Selfoss 29-30 | Íslandsmeistararnir fyrstir til að sigra Eyjamenn

Einar Kárason skrifar
VÍSIR/VILHELM
Taplausir Eyjamenn tóku á móti Íslandsmeisturum Selfoss í Vestmannaeyjum í kvöld. Heimamenn á fljúgandi siglingu með fullt hús stiga á meðan gestirnir höfðu unnið tvo, gert jafntefli og tapað einum leik.Selfyssingar settu tóninn í byrjun leiks og skoruðu fyrsta mark leiksins en þrátt fyrir jafnar upphafsmínútur tóku gestirnir yfir leikinn eftir um 10 mínútna leik og leiddu þá með 3 mörkum. ÍBV mættu á hælunum til leiks og áttu erfitt með að halda í við sterka Selfyssinga. Vörn gestanna stóð sterk og gaf fá færi á sér.Á milli þess sem liðin skiptust á að missa boltann klaufalega voru skoruð nokkur mörk en markvarslan í leiknum var ábótavön. Það var mikill hiti í leiknum og áttu dómarar leiksins í tómu basli með að tjóðra menn niður og fóru dómar og ekki dómar í taugarnar á leikmönnum beggja liða sem og áhorfendum.Þegar hálfleiksbjallan fór af stað var staðan 13-15 og Selfoss sennilega eilítið ósáttir með að vera ekki fleiri mörkum yfir.Gestirnir skoruðu einnig fyrsta mark síðari hálfleiksins og tóku því næst öll völd á vellinum. Eftir um 10 mínútur af síðari hálfleiknum var munurinn orðinn 7 mörk og brekkan orðin ansi brött fyrir þá hvítklæddu.Bæði lið búa yfir miklum gæðum og þrátt fyrir að Eyjamenn hafi ekki sýnt sínar bestu hliðar þá má aldrei afskrifa þá. Mögulega fór einhver kæruleysisbylgja yfir herbúðir Selfyssinga en síðasti fjórðingur leiksins var í aleigu heimaliðsins. ÍBV snéru við 6 marka mun á rétt um 10 mínútum, eða úr stöðunni 20-26 í 29-28.Þrátt fyrir yfirburði ÍBV þennan kafla sýndu Selfyssingar af hverju þeir eru núverandi Íslandsmeistarar en þeir tóku höndum saman og jöfnuðu leikinn 29-29. Heimamenn klikkuðu á næstu sókn og gestirnir brunuðu upp og fengu dæmt vítakast. Hergeir Grímsson fór ískaldur á línuna og skoraði. Eyjamenn tóku þá leikhlé þegar 12 sekúndur voru eftir, settu upp í sókn en náðu ekki að nýta hana.Því fór að Selfoss vann leik með eins marks mun og stigin tvö á leið með Herjólfi, hvort sem það er nýja eða gamla, og alla leið upp á Selfoss.Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar eru með ungt og öflugt lið. Yfirburðir þeirra bróðurpart leiksins voru miklir og þrátt fyrir karakter og dugnað Eyjamanna höfðu þeir það að sigla þessu í höfn eftir að ÍBV hafði komist yfir. Klaufamistök í sóknarleik ÍBV reyndust dýr.Hverjir stóðu uppúr?

Hjá ÍBV voru Hákon Daði Styrmisson og Kristján Örn Kristjánsson markahæstir með 9 mörk. Róbert Sigurðarson var ljósi punkturinn þeirra í varnarleiknum.Hjá gestunum var Atli Ævar Ingólfsson öflugastur með 8 mörk af línunni. Næstir voru Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson með 6 mörk hvor. Tryggvi Þórisson gerði virkilega vel í að halda línumönnum ÍBV í skefjum.Hvað gekk illa?

Eyjamönnum gekk almennt bara illa, sér í lagi í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það gekk gestunum illa að losa sig almennilega frá þeim. Boltinn virtist rosalega sleipur í fyrri hálfleiknum en liðin kepptust um hvort þeirra gæti misst frá sér fleiri bolta. Einnig var markvarslan var ekki nægilega góð í dag.Hvað gerist næst?

ÍBV leitast eftir að komast aftur á sigurbraut þegar þeir fá Aftureldingu í heimsókn næstkomandi þriðjudag en Selfoss reyna að byggja á þessu þegar KA koma suður degi síðar.

Erlingur Richardssonvísir/daníel
Erlingur: Við vorum að ströggla allan leikinn

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var að vonum svekktur með naumt tap gegn Selfyssingum.„Því ver og miður þá náum við ekki að krækja allaveg í eitt stig sem við höfðum tækifæri á hérna í lokin. Við vorum að ströggla allan leikinn. Selfoss voru skynsamir og voru klókir og spiluðu bara heilt yfir nokkuð vel.“„Sóknarlega í fyrri hálfleik erum við mjög slakir og erum að gera alltof mikið af tæknifeilum. Við vorum að ströggla en ég verð að hrósa liðinu fyrir að kveikja á sér þegar 20 mínútur eru eftir og hefðu kannski getað stolið sigrinum.”ÍBV voru mest 7 mörkum undir í leiknum en sýndu dugnað og karakter í að koma til baka og ná yfirhöndinni þegar lítið er eftir af leiknum. ,,Við förum rosalega illa með tvær síðustu sóknirnar. Þegar við erum búnir að hafa fyrir því að koma okkur í þessa stöðu að jafnvel að geta sigrar þá er mjög fúlt að sjá að við náum ekki að framkvæma betur. En svona er þetta og það er nú bara október ennþá.„Það er hægt að svekkja sig á sóknarleiknum í fyrri hálfleik. Hann var bara ekki nógu góður. Markvarslan var ekki góð heilt yfir en Petar Jokanovic kemur með fínar vörslur þegar korter er eftir en hann var ekki með nægilega góðar hendur heilt yfir,” sagði Erlingur að lokum.

Grímur Hergeirssonvísir/daníel
Grímur: Það þarf sterk bein í að klára ÍBV undir svona pressu

„Við erum hrikalega ánægðir,” sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss. „Það er talað um að þetta sé erfiðasti útivöllur deildarinnar og okkur líður vel hérna. Auðvitað varð þetta hörkuleikur. Það eru alltaf hörkuleikir milli Selfoss og ÍBV. Við erum hrikalega sáttir og ég er stoltur af strákunum að hafa klárað þetta.”„Við lendum í smá basli. Það var alltaf vitað þó við værum komnir með einhverja forustu þá láta Eyjamenn ekkert rúlla yfir sig hérna og það var vitað að þeir kæmu með rönn. Það var bara spurning hvort við myndum standast það. Við erum klaufar og lendum í brottvísunum og þar af brottvísun útaf rangri skiptingu. Við gerðum okkur þetta ekkert auðvelt fyrir en það sem ég er ánægðastur með er að við skildum standast þetta og klára leikinn með sigri.”„Það þarf sterkar taugar og sterk bein í að klára ÍBV hérna undir svona pressu. Við gerðum það og það er bara hrikalega flott. Ég er gríðarlega ánægður með strákana. Mér fannst varnarleikurinn standa nokkuð vel lengst af.”„Vorum mjög þéttir og þeir voru í erfiðleikum með að skora á tímabili í leiknum. Við erum að fá helling af hraðaupphlaupsmörkum. Ég er mjög ánægður með það. Við erum ennþá, eins og önnur lið, að þróa okkar leik og það er snemmt í tímabilinu. Þetta er bara rétt að byrja. Við þurfum að vinna í fullt af hlutum og erum að því á fullu og höldum því áfram,” sagði Grímur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.