Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 23-20 | Viðsnúningur Hauka skilaði sigri

Benedikt Grétarsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka.
Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka. vísir/vilhelm
Haukar eru með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum í Olísdeild karla í handbolta eftir 23-20 sigur á Stjörnunni í dag.Stjörnumenn höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik en Haukar snéru við taflinu í seinni hálfleik og tóku bæði stigin. Brynjólfur Snær Brynjólfsson skoraði átta mörk fyrir Hauka en besti maður Stjörnunnar var markvörðurinn Stephen Nielsen með 21 varin skot.Haukar byrjuðu ágætlega og komust í 6-4 en þá small Stjörnuliðið heldur betur saman. Vörn gestanna setti ömurlegan sóknarleik Hauka í gjörgæslu og í kjölfarið skoruðu gestirnir auðveld mörk úr hraðupphlaupum.Stjarnan vann síðustu 12 mínútur fyrri hálfleiks 8-2 og það var virkilega gaman að sjá til leikmanna liðsins á þessum kafla. Menn börðust, fögnuðu öllum góðum hlutum og komust auðveldlega inn í hausinn á ráðþrota og hugmyndasnauðum Haukamönnum. Staðan í hálfleik var 8-12 og það var í meira lagi sanngjarnt.Í upphafi seinni hálfleiks virtust Haukar vera örlítið ákveðnari en Stephen Nielsen hélt áfram góðri frammistöðu í markinu og sá til þess að Stjörnumenn héldu sjó. Haukar minnkuðu muninn í eitt mark þegar átján mínútur voru eftir að leiknum og ljóst að lokakaflinn yrði æsispennandi.Heimamenn komust yfir 19-18 þegar um sjö mínútur voru til leiksloka og þar var að verki Brynjólfur Snær Brynjólfsson sem átti mjög góðan leik í hægra horninu. Þessi þröskuldur, að komast yfir í leiknum, reyndist Haukum gríðarlega mikilvægur og þrátt fyrir hetjulega baráttu Stjörnumanna, lönduðu Haukar torsóttum sigriAf hverju unnu Haukar leikinn?

Tja, þegar stórt er spurt. Haukar grófu djúpt í reynslubankann í seinni hálfleik, þéttu vörnina og keyrðu miklu betur í bakið á Stjörnunni. Það munaði mikið um að Stjarnan náði ekki alveg að stilla upp í sína bestu vörn á löngum köflum og Haukar gengu á lagið. Haukar byrjuðu líka að leysa miklu betur inn fyrir aftan vörn Stjörnunnar og sköpuðu betri færi.Hverjir stóðu upp úr?

Stephen Nielsen var frábær í marki Stjönunnar og kollegi hans hjá Haukum, Grétar Ari Guðjónsson átti einnig fínan leik. Innkoma Brynjólfs í sóknarleik Hauka skipti miklu fyrir liðið. Andri Þór Helgason sýndi flott tilþrif í hroninu hjá Stjörnunni og Andri Rúnarsson er spennandi leikmaður.Hvað gekk illa?

Nýting dauðafæra var alls ekki á pari. Leó Snær Pétursson gerði sig t.a.m. sekan um að klúðra tveimur hraðupphlaupum og það er dýrt í svona leik. Línu og hornafæri fóru sömuleiðis illa og Vignir Svavarsson var sökudólgur í þeirri nýtingu í nokkur skipti.Hvað gerist næst?

Haukamenn halda í Safamýrina og mæta þar Fram, sem hefur oft reynst þeim rauðu erfiður andstæðingur. Stjörnumenn fá nýliða Fjölnis í heimsókn í TM-höllina í Garðabæ.

Rúnar: Þeir hafa ákveðið að prufa einhverja dómara

„Það voru of fáir leikmenn að stíga upp hjá okkur en með betri dómgæslu hefum við kannski verið í betra jafnvægi. Við erum með unga stráka í liðinu sem kannski kunna ekki að tækla það þegar skrýtnir dómar líta dagsins ljós,“ sagði Rúnar Þór Sigtryggsson eftir 23-20 tap Stjörnunnar gegn Haukum í þriðju umferð Olísdeildarinnar í dag.Blaðamaður hefur orð á því að dómarar leiksins hafi átt í svolitulum erfiðleikum með að halda einni ákveðinni línu í leiknu.„Mér finnst bara merkilegt að þú kallir þetta línu. Þeir (HSÍ, innsk blm) hafa kannski haldið að þetta yrði bara einstefna allan leikinn og ákveðið að prufa bara einhverja dómara. Þetta var bara ekki nógu gott, fullt af skrefdómum sem voru skrítnir og svona. Æi, hættum bara að ræða þetta,“ sagði Rúnar ákveðinn.Þrátt fyrir tapið léku Stjörnumenn vel, sérstaklega í fyrri hálfleik þegar þeir höfðu sannkallað hreðjatak á Haukum.„Við erum með unga útilínu í dag og allir rétthentir. Þeir voru þolinmóðir og leystu þetta vel. Vörnin var sterk og við náðum skiptingunum sem við vildum. Það var bara góður heildarbragur á þessu hjá okkur. Svo verðum við þreyttir í seinni hálfleik og þegar menn þurfa hvíld, fer jafnvægið úr liðinu.“„Heilt yfir er ég ánægður með margt í okkar leik en líka óánægður með marga hluti. Mér finnst að menn sem kalla sig lykilmenn í þessu liði, stígi upp og hjálpi meira til inni á vellinum,“ sagði Rúnar að lokum.Gunnar: Eigum langt í land sóknarlega

Gunnar Magnússon er að hefja sitt fimmta tímabil sem þjálfari Hauka og það voru blendnar tilfinningar hjá honum eftir seiglusigur Hauka gegn Stjörnunni.„ Þetta er súrsætur sigur. Auðvitað eru það stigin sem telja og þessi tvö stig eru okkur hrikalega mikilvæg en það breytir því ekki að það var margt sem var ekki í lagi hjá okkur. Fyrri hálfleikur var skelfilegur sóknarlega og í raun vorum við daprir fyrstu 40 mínútur leiksins. Svo skánaði þetta og við byrjuðum að finna Brynjólf í hægra horninu. Hann var kannski ljósið í myrkrinu hjá okkur í dag en það var líka karakter hjá öllu liðinu að snúa við slæmri stöðu og vinna leikinn,“ sagði Gunnar eftir leik.Haukamenn náðu að keyra betur á vörn Stjörnumanna í seinni hálfleik og fá auðveld og dýrmæt mörk.„Já, hraðupphlaupin komu í seinni hálfleik en við vorum nánast ekki með í fyrri hálfleik. Ég er ánægður með sigurinn en við þurfum að bæta okkur verulega sóknarlega ef við ætlum okkur einhverja hluti í þessari deild. Það þarf engan sérstakan sérfræðing til að sjá það,“ sagði Gunnar og bætti við.„Við þurfum að spila miklu betur sem lið í sókninni. Þetta er rosalega hægt og fyrirsjáanlegt og menn sækja alltof mikið inn á miðjuna. Það vantar bara ansi mikið upp á að við náum að spila sóknarleik eins og við viljum spila. Við eigum langt í land á þeim vígstöðvum.“Orri Þorkelsson og Heimir Óli Heimisson eru öflugir sóknarmenn og ættu að bæta leik Hauka þegar þeir snúa aftur eftir meiðsli. Gunnar segir óljóst hvenær þeir verði klárir í slaginn.„Það er eitthvað í Orra ennþá, líklega um mánuður. Ég veit ekki alveg með Heimi Óla en það er að styttast. Þeir sem eru inni á vellinum í þeirra fjarveru þurfa bara að gera betur sem einstaklingar og sem lið,“ sagði þjálfari Hauka, Gunnar Magnússon.Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.