Skoðun

Píratasiðferðið

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Flestir telja sig hafa góð prins­ipp en þeir eru kannski færri sem standa við þau þegar á reynir. Og það er einmitt þá sem prinsippin skipta máli, hverju við erum tilbúin að fórna til vegna þeirra.

Á þetta reyndi á Alþingi nú í vikunni. Píratarnir hafa farið fremstir í flokki þeirra sem telja Alþingi siðlaust og vonlaust. Þeir voru því fullir vandlætingar yfir því að tiltekinn Miðflokksmaður, sem hafði orðið sér til skammar á Klaustri og fengið ávítur frá siðanefnd Alþingis, yrði formaður í nefnd. En þeir ákváðu að greiða ekki atkvæði gegn honum og hafa borið fram óvenju hreinskipta skýringu á þeirri ákvörðun.

Ástæðan fyrir því að þau láta Bergþór yfir sig ganga segja þau vera að meirihlutinn á þinginu hafi hótað því að ef stjórnarandstaðan leysti ekki sjálf úr sínum málum myndi hún ekki fá formennsku í tveimur öðrum nefndum. Það hefði þýtt að Þórhildur Sunna, sem fyrst íslenskra þingmanna var ávítuð af siðanefnd, fengi ekki nefndarformennsku.

Það var því úr vöndu að ráða fyrir Píratana. Annars vegar prins­ipp um að vondir menn eins og Klaustursmenn ættu ekki að stýra nefndum Alþingis og hins vegar valdastaða í þinginu. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Í stað þess að standa á prinsippinu og neita að bera ábyrgð á nefndarformennsku Bergþórs og gefa þar með eftir nefndarformennskur þá völdu Píratarnir stólana og stöðutáknin.

Auðvitað er það síðan sérstakt umhugsunarefni að Píratar telji eðlilegt að Þórhildur Sunna sé heppileg til að stýra þingnefnd. En þá verða menn að muna að Pírata­siðferðið nær ekki til Píratanna sjálfra, bara allra annarra.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×