Handbolti

Arnar: Hef ekki upplifað annað eins

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Arnar stýrði kvennalandsliðinu í fyrsta sinn í dag.
Arnar stýrði kvennalandsliðinu í fyrsta sinn í dag. vísir/andri marinó
Þetta var engin drauma byrjun hjá nýráðnum þjálfara Íslands, Arnari Péturssyni, sem tapaði með 21 marki, 29-8, gegn Króatíu á útivelli í dag. 

„Ég hafði ekki þær væntingar að við myndum klára þær, ég vissi alveg að þetta yrði erfitt. Enn ég hafði þær væntingar, eftir að hafa skoðað Króatana vel, að við myndum standa meira í þeim en við gerðum,“ sagði Addi Pé aðspurður um þær væntingar sem hann hafði fyrir leikinn

„Ég vissi að við værum töluvert á eftir þeim, sérstaklega líkamlega. Þær vinna okkur alltaf maður á mann og við unnum líka illa úr stöðunni tvær á tvær. Við eigum að gera betur í þessum stöðum en það er líka partur af þessu, að við erum eftirá hvað líkamlegt atgervi varðar. Þetta er eitthvað sem ég sem þjálfari, og við í heild þurfum að fara að skoða betur.“ 

Arnar segist geta tekið eitthvað aðeins jákvætt með sér eftir þennan leik, hann segir að vörnin hafi oft á tíðum verið að vinna vel og segir að bæði, Steinunn Björnsdóttir og Ester Óskarsdóttir, hafi unnið vel í vörninni og segir hann það vera eitthvað sem hann getur byggt á. Enn Arnar tekur undir það að sóknarleikurinn hafi verið afar erfiður í dag og að hann þurfi að skoða betur hvað hægt sé að gera fyrir leikinn gegn Frökkum á sunnudaginn

„Sóknarlega var þetta erfitt, við viljum spila hraða sókn en það er spurning hvort við þurfum ekki að fara að hægja aðeins á okkur og reyna frekar að vinna betur úr stöðunum sóknarlega. Í upphafi leiks vorum við alveg að koma okkur í færi, en við klikkuðum á einhverjum 8-9 dauðafærum sem reif bara tennurnar úr stelpunum.“

Arnar segist ennþá vera að reyna að ná áttum á því hvað í raun og veru gerðist í leiknum og hann hafi hreinlega ekki upplifað annað eins áður

„Ég er bara sjokkeraður að tapa með 20 mörkum, þetta er eitthvað sem ég hef ekki upplifað áður. Hvað þá að skora bara 3 mörk í fyrri hálfleik, þetta er alveg nýtt fyrir mér.“

Arnar viðurkennir að hann sé ekki með miklar væntingar fyrir leikinn gegn heims- og evrópumeisturunum á sunnudaginn, sérstaklega ekki eftir þennan leik en hann gerir þær kröfur að stelpurnar geri betur 

„Ég geri bara þær kröfur að við gerum betur. Að við verðum hugrakkari í því sem við erum að gera, förum all-in og sleppum okkur,“ sagði Arnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×