Skoðun

Hverjum má treysta?

Bolli Héðinsson skrifar
Sú dapurlega orðræða sem þjóðin varð vitni að um orkupakkann dró fram hvaða stjórnmálaflokkum má treysta í Evrópumálum. Þannig þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskum stjórnmálum til að átta sig á að Vinstri græn hefðu farið fram gegn orkupakkanum, með sömu heilögu vandlætingunni og sömu röksemdafærslu og Miðflokksmenn, ef ekki hefði svo viljað til að þau væru einmitt í ríkisstjórn núna. Vinstri græn er einfaldlega þannig flokkur sem segir eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn. Um það ber myndun núverandi ríkisstjórnarinnar órækt vitni, þegar Vinstri græn tóku meðvitaða ákvörðun um að fara í stjórn með flokkum sem tryggðu að þau þyrftu ekki að standa við kosningaloforð sín. T.d. loforð um hærra auðlindagjald í sjávarútvegi, sem þau höfðu síðan sérstaka forgöngu um að lækka, þvert á það sem þau höfðu boðað fyrir kosningar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins lét hafa eftir sér í upphafi umræðunnar um orkupakkann:

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana? (...) Raforkumál Íslands eru ekki innri-markaðsmál. (…) Eru það rök að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun sé ástæða til að ganga lengra?“

Með svona orðræðu er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og Íhaldsflokkurinn breski sem alla tíð hefur slegið úr og í um Evrópusamvinnuna til að freista þess að halda öllum flokksmönnum góðum. Þessi afstaða leiddi Breta á endanum í þær ógöngur sem þeir glíma við nú.

Sama gildir á Íslandi, í Evrópumálum er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Annaðhvort viðurkenna menn þann ávinning sem þjóðin hefur af þátttöku sinni í EES, og eru óhræddir við að halda honum á lofti, eða menn eru einfaldlega á móti Evrópusamvinnunni og reiðubúnir að færa þær fórnir sem það útheimtir. Hvorum megin liggur Sjálfstæðisflokkurinn?

Höfundur er hagfræðingur






Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×