Skoðun

Þú borðar lygi

Ingólfur Ásgeirsson skrifar
Danir hafa af umhverfisástæðum ákveðið að stöðva leyfisveitingar fyrir sjókvíaeldi. Mengunin og neikvæð áhrif á lífríkið þykja óásættanleg. Þegar tilkynnt var um þessa ákvörðun sagði Lea Wermelin, umhverfisráðherra Danmerkur, að ef þessi iðnaður vildi stækka þá þyrfti aukið eldi að fara fram á landi.

Danir eru ekki þeir einu sem eru að vakna upp við vondan draum um skaðsemi þessa mengandi iðnaðar. Á dögunum tókst náttúruverndarsinnum og heimafólki við einn fallegasta fjörð Chile-hluta hins stórbrotna Patagóníusvæðis að koma í veg fyrir að norskt sjókvíaeldisfyrirtæki kæmi sér þar fyrir. Og í nágrannaríkinu Argentínu fer nú fram hörð barátta gegn því að norsku sjókvíaeldisrisarnir fái leyfi fyrir starfsemi sinni. Margir af þekktustu matreiðslumeisturum Argentínu og náttúruverndarsamtök hafa snúið bökum saman gegn þungu lobbíi sjókvíaeldisins (rétt eins og gerðist hér). Þar á meðal er stjörnukokkurinn Mauro Colagreco, eigandi veitingastaðarins Mirazur í Frakklandi, sem státar af þremur Michelin-stjörnum og var nýlega valinn besti veitingastaður í heimi. „Þú borðar lygi,“ er slagorðið sem Colagreco og félagar nota í baráttu sinni og beina þar spjótum sínum að eldislaxinum sem þeir segja að sé alls engin hollustuvara.

Danir hafa réttilega áttað sig á því að það er ekki verjandi að byggja áfram upp iðnað þar sem allur úrgangur af starfseminni, fóðurafgangar, fiskisaur, lyf og eiturefni, er látinn vaða beint í sjóinn eins og tíðkast í opnu sjókvíaeldi.

Samkvæmt Umhverfisstofnun Noregs er saurmengunin frá hverju tonni af laxeldi í opnum sjókvíum á við frá sextán manns. Þetta þýðir að ef sjókvíaeldi við Ísland nær 71.000 tonna ársframleiðslu, eins og hámarkið er nú miðað við áhættumat Hafrannsóknastofnunar, verður skólpmengunin á við 1.136.000 manns. Það er meira en þrefaldur íbúafjöldi Íslands.

Að halda áfram á þessari braut er hugsunarháttur liðins tíma þegar talið var að hafið gæti tekið endalaust við öllu sem í það var dælt. Nú vitum við betur og verðum að fara að hegða okkur í samræmi við það.
Skoðun

Skoðun

18 mánuðir

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar

Sjá meira


×