Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fylkir 2-0 | ÍBV vann í síðasta heimaleiknum

Einar Kárason skrifar
VÍSIR/DANÍEL
Haustvindarnir blésu duglega á Hásteinsvelli í dag þegar ÍBV tók á móti Fylki í næst síðustu umferð Pepsi Max deild kvenna.Leikurinn var þýðingamikill fyrir ÍBV en með sigri í dag en sigur myndi þýða áframhaldandi veru liðsins í deild þeirra bestu. Gestirnir úr Árbænum sátu í 5. sæti deildarinnar í fínum málum.Heimastúlkur hófu leikinn með vindinn í bakið og byrjuðu að sækja látlaust frá nánast fyrstu mínútu leiksins. Brenna Lovera og Sigríður Lára Garðarsdóttir fengu fín færi en inn vildi boltinn ekki. ÍBV fengu 10 horn í leiknum en þau komu nánast öll í fyrri hálfleiknum. Ísinn var næstum brotinn eftir hornspyrnu Júlíönu Sveinsdóttur en á einhvern ótrúlegan hátt náðu varnarmenn gestanna að koma boltanum í burtu.Eftir 20 mínútna leik varð aðeins meira jafnræði næstu mínúturnar en það átti eftir að breytast þegar Þórdís Elva Ágústsdóttir, leikmaður Fylkis, gerðist sek um dómgreinarleysi þegar hún sparkaði Ingibjörgu Lúcíu Ragnarsdóttur niður á miðjum vellinum. Dómari leiksins sá sér enga annara kosta völ en að senda Þórdísi af velli og gestirnir manni færri eftir 36 mínútur spilaðar. Það átti eftir að kosta en einungis 2 mínútum síðar skoraði Brenna Lovera af stuttu færi eftir hornspyrnu. Róðurinn átti ekki eftir að léttast örstuttu fyrir hálfleik þegar Sigríður Lára tvöfaldaði forustuna með skalla af stuttu færi eftir en eina hornspyrnuna.Fylkisstúlkur komu tvíelfdar inn í síðari hálfleikinn og ekki var að sjá að þær væru 10 á móti 11. Með vindinn í bakið var síðari hálfleikur í þeirra eigu og áttu gestirnir ófá skotin hvaðan af á vellinum. Nóg var að gera fyrir Guðnýju Geirsdóttur, markvörð ÍBV, og varnarlínu hennar. Besta færi Fylkis kom eftir tæplega 65 mínútna leik þegar Sæunn Rós Ríkharðsdóttir átti gott skot úr teig á nærstöng sem Guðný varði frábærlega í stöng og út.Áfram héldu gestirnir að sækja og skjóta að marki en án árangurs. Svona hélt þetta áfram þar til leikurinn var flautaður af. 2-0 sigur ÍBV því staðreynd og sætið í deildinni gulltryggt og með því er Keflavík fallið niður um deild.Af hverju vann ÍBV?

ÍBV nýtti tvö færi sem þær fengu í fyrri hálfleiknum og vörðust síðan fagmannlega í síðari hálfleiknum.Hvað gekk illa?

Þrátt fyrir látlausar sóknir Fylkis í síðari hálfleiknum náðu þær ekki að koma boltanum í netið. Þórdís Elva Ágústsdóttir er einnig líklega svekkt yfir því að hafa fengið reisupassann í fyrri hálfleik í stöðunni 0-0.Hverjir stóðu upp úr?

Erfitt að gera upp á milli leikmanna ÍBV í þessum leik en Sesselja Líf Valgeirsdóttir stóð upp úr í öflugri varnarlínu. Guðný Geirsdóttir átti einnig góðan leik í markinu sem og Sigríður Lára Garðarsdóttir á miðjunni.Hvað gerist næst?

ÍBV og Fylkir geta bæði farið í lokaleik tímabilsins stresslaus og notið þess að spila fótbolta.Kjartan: Þetta var bíó

„Mér fannst þetta óttalegt bíó,” sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis í leikslok. „Að spila á móti rokinu og þær gerðu sitt besta. Ég held að báðum liðum hafi tekist ágætlega til. Vindurinn réði klárlega heilmiklu. Þær skora úr 2 hornum með innswingi. Þær þurftu meira á sigri að halda en við og kannski var það bensínið sem þær þurftu til að vinna þennan leik.”„Við misstum aðeins hausinn á einum kafla og verðum manni færri. Það sýnir kannski hversu sterkur vindurinn var en það var eins og við værum jafnmörg í seinni hálfleik. Mér fannst vindurinn ráða alltof miklu og er þakklátur fyrir að vera ekki í botnbaráttu í þessum aðstæðum.”Fylkir missti mann af velli í fyrri hálfleik í stöðunni 0-0. „Ég veit ekki alveg nákvæmlega neitt um þetta. Þórdís greyjið missir hausinn. Það var eitthvað búið að sparka hana niður og stíga á hana og hún tók því illa og missti sig. Ég og hún lærum bara af þessu,” sagði Kjartan að lokum.Sesselja: Geggjað gaman

Sesselja Líf Valgeirsdóttir átti frábæran leik í vörn ÍBV í dag og var að vonum ánægð með leik síns liðs í dag. „Þetta var bara geggjað gaman. Gaman að vinna og gaman að vinna síðasta heimaleikinn. Við stóðum okkur vel.”„Við ætluðum okkur bara  allan tímann að vinna þennan leik og gulltryggja þetta (sæti í deildinni). Við þurfum ekkert að vera að treysta á önnur lið. Við ættum að vera löngu búnar að standa okkur betur og tryggja þetta sæti í deildinni. Þetta var bara fínt.”Leikurinn var sannarlega hálfleiksskiptur en báðir hálfleikar fóru nánast fram á sama vallarhelmingi vegna vindáttar. ÍBV fóru með 2-0 forustu inn í hálfleikinn en Sesselja var ekki á því að sitt lið hafi óttast það að spila gegn vindinum. „Við vorum búnar að undirbúa okkur undir það að vindurinn myndi bara vera á þetta mark. Við tókum því eins og við þurftum að taka því og spiluðum þannig því miður svolítið ljótan bolta en það heppnaðist í dag. Vörðumst vel og vorum samheldnar.”Skiptir það nokkru máli hvort maður spili fallegan eða ljótan bolta þegar 3 stig eru í boði? „Nei, alls ekki. Við ætluðum að halda hreinu og gerðum það. Það er virkilega gott,” sagði Sesselja brosandi.Jón Óli: Var snarvitlaus

„Þetta var kaflaskipt,” sagði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, eftir leik. „Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik og þær miklu betri í seinni hálfleik. Það jók aðeins í vindinn í hálfleik og þó við höfum verið einum fleirri áttum við ekki breik í þær.”„Nú er þetta bara allt á hreinu. Nú get ég bara farið að undirbúa næsta leik og Andri (Ólafsson) farið að undirbúa næsta tímabil. Þannig að það er bara þungu fargi af mönnum létt og ánægjan skín úr hverju andliti.”Jón Óli talaði um næsta tímabil og að Andri Ólafsson, aðstoðarmaður hans, sé að undirbúa það. Hvað meinar hann með því? „Andri verður þjálfari á næsta tímabili. Það er allt á hreinu.”„Ég var snarvitlaus. Ég hef ekki verið svona æstur í fótboltaleik síðan ég var töluvert yngri. Mér fannst of margir leikmenn halda að þetta væri bara komið og ætluðu að taka þetta í rólegheitum. Við hefðum hæglega getað misst þetta niður. Þess vegna var ég orðinn æstur og gargaði menn áfram því mér fannst of margar ætla að taka þetta í rólegheitum.”Það lá þungt á ÍBV liðinu í síðari hálfleiknum og var Jón Óli ánægður með sínar stelpur. „Guðný (Geirsdóttir) í markinu í dag var algjörlega frábært og Sesselja er búin að eiga marga frábæra leiki. Júlíana líka. Ég er ofboðslega sáttur með hvernig heimastelpurnar hafa verið að spila undanfarna leiki. Mér finnst þær hafa verið frábærar.”Margar ungar stelpur hafa fengið stórt hlutverk í liði ÍBV og framtíðin virðist björt. „Hún er það sannarlega. Úr þriðja flokknum eru gífurlega efnilegar stelpur. Ragna Sara (Magnúsdóttir) og Helena (Jónsdóttir) hafa verið fasta manneskjur í liðinu fleiri fleiri leiki. Við vitum alveg hvernig Þóra (Björg Stefánsdóttir) verður í framtíðinni. Hún á eftir að skora hvert glæsimarkið á fætur öðru á Hásteinsvelli. Ég lít mjög björtum augum á framtíðina,” sagði Jón Óli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.