Handbolti

ÍBV og Fram byrja á sigrum | Markaþurrð í Eyjum en markaveisla á Akureyri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ragnheiður var markahæst í liði Fram í dag.
Ragnheiður var markahæst í liði Fram í dag. Vísir/Bára

ÍBV marði Aftureldingu í Eyjum 
ÍBV lenti í stökustu vandræðum með nýliða Aftureldingar í fyrsta leik liðanna í Olís deild kvenna. Það verður seint sagt að sóknarleikur liðanna hafi verið upp á marga fiska en gestirnir gáfu ekki tommu eftir og voru á endanum mjög nálægt því að ná í stig í Vestmannaeyjum í dag.  

Nýliðarnir voru raunar yfir þegar flautað var til hálfleiks, staðan þá 8-6 Aftureldingu í vil. Í þeim síðari komust ÍBV snemma yfir, 10-9, og létu þá forystu ekki af hendi. Á endanum lauk leiknum með tveggja marka sigri ÍBV, lokatölur 15-13.

Markahæst hjá ÍBV var Ásta Björt Júlíusdóttir með þrjú mörk. Hjá Aftureldingu skoruðu þær Kristín Arndís Ólafsdóttir, Silja Ísberg og Roberta Ivanauskaite þrjú mörk hvor. 


Öruggt hjá Fram á Akureyri
Fyrir norðan voru öllu meiri læti en Fram vann þar öruggan níu marka sigur á KA/Þór í miklum markaleik. Fram náði snemma forystunni á Akureyri og lét hana aldrei af hendi.

Hægt og rólega varð munurinn alltaf meiri og meiri en í hálfleik munaði sex mörkum á liðunum, staðan þá 18-12 Fram í vil.

Í síðari hálfleik var meira af því sama upp á teningnum en bæði lið hættu að spila vörn. Fór það svo að fram vann með níu marka mun, lokatölur 39-28.

Martha Hermannsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með 8 mörk á meðan Ragnheiður Júlíusdóttir gerði 10 mörk í liði Fram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.