Skoðun

Eru sjúklingar ekki fólk?

Gauti Grétarsson skrifar
Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að bjóða út sjúkraþjálfun. Markmiðið er að einstaklingum sé veitt sjúkraþjálfun sem hluti af heildstæðri heilbrigðisþjónustu. Gott og vel. Útboðsgögnin eru komin. En dokum aðeins við. Hvergi er talað um sjúklingana sem til okkar koma eða hvaða sjúkdóma þeir eru með. Útboðsgögnin hljóma eins og verið sé að bjóða út samgöngur á Íslandi; verktakinn þarf að hafa próf á skurðgröfu og hafa gott vald á íslensku. Það á að kaupa af verktakanum 20, 30 eða 60 mínútur og hann þarf að sitja í skurðgröfunni allan tímann. Sama verð er hvort sem verið er að byggja brú, göng í gegnum fjall, veg á sléttlendi eða veg yfir fjallveg. Það myndi enginn verktaki á skurðgröfu sætta sig við svona vinnubrögð.Það gengur ekki heldur að bjóða út sjúklinga eða sjúklingahópa á þennan hátt. Eigum við að bjóða í verk í sjúkraþjálfun fyrir 1.500 einstaklinga með krabbamein, 800 sjúklinga sem farið hafa í liðskiptaaðgerð, 1.000 sjúklinga sem eru með hjarta- og æðasjúkdóma, 1.500 manns sem bíða eftir að komast á elli- eða hjúkrunarheimili, 500 börn með þroskafrávik, 1.500 einstaklinga í framhalds- og háskólum með vöðvabólgu í herðum og hálsi vegna þess hve lengi þau sitja skökk við tölvurnar, 1.000 einstaklinga sem lent hafa í bílslysum og aðra 1.000 með MS, Alzheimer og Parkinson?Þetta er raunveruleikinn í umhverfi sjúkraþjálfara. Við erum fagfólk í heilbrigðisþjónustu. Til að komast í nám í sjúkraþjálfun þarf ungt fólk að þreyta samkeppnispróf. Þar þarf að sýna fram á afburða þekkingu, meðal annars í líffræði, eðlisfræði og félagsfræði auk þess að sýna ákveðna hæfileika í samskiptum. Sjálfur er ég með sérhæfða framhaldsmenntun og rúmlega 30 ára starfsreynslu. Það á svo að bjóða mér að gera tilboð í meðferðir á fólki af holdi og blóði þar sem talað er um sjúklinga eins og þeir séu vegir eða brýr.Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari.

Tengd skjöl
Skoðun

Skoðun

Open

Gunnar Dan Wiium skrifar

Skoðun

Fylgir þú lögum?

Ugla Stefaníu Kristjönudóttir Jónsdóttir,Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.