Viðskipti innlent

Rann­veig og Unnur verða vara­seðla­banka­stjórar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Unnur Guðnadóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Unnur Guðnadóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Mynd/Samsett
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafa verið fluttar í starf varaseðlabankastjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu vef Stjórnarráðsins.

Í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands, sem samþykkt voru í júní síðastliðinn er kveðið á um að skipaðir verði þrír varaseðlabankastjórar til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiði málefni sem varða peningastefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjármálaeftirlit.

Sjá einnig: Unnur og Rannveig sagðar verða varaseðlabankastjórar



Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur flutt Rannveigu Sigurðardóttur í starf varaseðlabankastjóra peningastefnu frá og með 1. janúar 2020 með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði nýju laganna. Hún var skipuð aðstoðarseðlabankastjóri í fyrra.

Þar kemur fram að embætti aðstoðarseðlabankastjóra verði lagt niður þegar lögin öðlast gildi um næstu áramót og að forsætisráðherra sé heimilt án auglýsingar að flytja núverandi aðstoðarseðlabankastjóra í nýtt embætti varaseðlabankastjóra.

Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutt Unni Gunnarsdóttur í starf varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá og með 1. janúar 2020 með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Unnur var ráðin forstjóri Fjármálaeftirlitsins árið 2012.

Í bráðabirgðalögunum kemur fram að embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins verði lagt niður þegar sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins öðlast gildi um næstu áramót og að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt án auglýsingar að flytja forstjóra Fjármálaeftirlitsins í nýtt embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×