Handbolti

Eins marks sigur Vals á sænsku deildarmeisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sandra Erlingsdóttir og stöllur byrjuðu Evrópukeppnina á sigri
Sandra Erlingsdóttir og stöllur byrjuðu Evrópukeppnina á sigri vísir/daníel
Valur vann eins marks sigur á sænsku deildarmeisturunum í Skuru í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð undankeppni EHF bikars kvenna í handbolta í kvöld.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn og var aldrei meira en eins marks munur á liðunum. Staðan að fyrri hálfleik loknum var 9-9.

Íslandsmeistararnir byrjuðu seinni hálfleik betur og tóku yfirhöndina en komust þó ekki í meira en þriggja marka forystu.

Sænsku gestirnir náðu að jafna metin en Valur komst aftur yfir og hélt yfirhöndinni út leikinn. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 23-20 fyrir Val en gestirnir náðu að minnka muninn í 22-23. Nær komust þær ekki og urðu það lokatölur.

Auður Ester Gestsdóttir fór mikinn í liði Vals og skoraði átta mörk. Sandra Erlingsdóttir gerði fimm og Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði þrjú.

Seinni leikur liðanna fer einnig fram í Origo höllinni að Hlíðarenda á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×