Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - ÍR 26-33 | Öruggt hjá Breiðhyltingum gegn nýliðunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bergvin Þór Gíslason skoraði tvö mörk fyrir ÍR.
Bergvin Þór Gíslason skoraði tvö mörk fyrir ÍR. vísir/ernir

ÍR vann öruggan sjö marka sigur á nýliðum Fjölnis, 26-33, í 1. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Hafþór Vignisson og Kristján Orri Jóhannsson skoruðu átta mörk hvor fyrir ÍR-inga en Breki Dagsson var markahæstur Fjölnismanna með tíu mörk.

Sviðið virtist vera full stórt fyrir nýliðana sem virtust ekki hafa mikla trú á verkefninu. ÍR-ingar litu hins vegar vel út og náðu strax heljartaki á leiknum sem þeir slepptu ekki.

Vörn ÍR átti ekki í miklum vandræðum með einhæfa sókn Fjölnis. Og þegar vörnin opnaðist varði Sigurður Ingiberg Ólafsson. Hann var með 50% markvörslu í hálfleik á móti 30% hjá Bjarka Snæ Jónssyni.

Í sóknarleik Fjölnis mæddi mest á Breka sem fékk litla hjálp, nema frá Brynjari Óla Kristjánssyni sem átti fína innkomu og skoraði sex mörk.

Fjölnismenn héngu aðeins í ÍR-ingum og Björgvin Páll Rúnarsson minnkaði muninn í þrjú mörk, 8-11, þegar ellefu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

Þessar ellefu mínútur vann ÍR 5-2 og fór með sex marka forskot til búningsherbergja, 10-16.

ÍR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og náðu fljótlega sjö marka forskoti, 13-20.

Þá kom ágætis kafli hjá Fjölni. Heimamenn fengur loksins mörk úr hraðaupphlaupum og minnkuðu muninn tvívegis í þrjú mörk.

Nær hleyptu ÍR-ingar Fjölnismönnum ekki. Sóknin fór aftur í gang og bilið breikkaði á ný. Á endanum munaði sjö mörkum á liðunum, 26-33.

Af hverju vann ÍR?
Breiðhyltingar voru tilbúnir allt frá 1. mínútu og náðu strax yfirhöndinni. Fyrir utan smá kafla um miðbik beggja hálfleikja voru ÍR-ingar sterkari og leystu verkefnið vel af hendi.

Gestirnir úr Breiðholtinu spiluðu hratt að venju og skoruðu sex mörk eftir hraðaupphlaup og annað eins eftir hraða miðju. Á meðan skoraði Fjölnir aðeins þrjú hraðaupphlaupsmörk sem öll komu um miðjan seinni hálfleiks.

Hverjir stóðu upp úr?
Nýju mennirnir hjá ÍR voru flottir. Hafþór skoraði átta mörk úr aðeins tíu skotum og Sigurður Ingiberg varði 14 skot (44%). Kristján Orri var heitur í hægra horninu og skilaði átta mörkum. Þá var Þrándur Gíslason öflugur í vörninni og skoraði auk þess þrjú mörk.

Breki var allt í öllu í sóknarleik Fjölnis og Brynjar Óli kom sterkur inn. Fleiri hefðu þurft að leggja þeim lið til að Fjölnismenn ættu möguleika í kvöld.

Hvað gekk illa?
Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, hlýtur að vera ósáttur við hversu mörg mörk hans menn fengu á sig eftir hraða miðju. Fjölnismenn voru oft lengi til baka og fengu ódýr mörk í bakið

Eins og áður sagði var sóknarleikur Fjölnis einhæfur og mikið mæddi á Breka. Höndin fór mjög oft og Fjölnismenn enduðu oft á neyðarskoti. Hægri vængurinn var nánast óvirkur en þeir Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha og Bergur Elí Rúnarsson skoruðu aðeins samtals tvö mörk úr tíu skotum.

Hvað gerist næst?
Á sunnudaginn sækir Fjölnir HK, hina nýliðana, heim. Degi síðar fara ÍR-ingar austur fyrir fjall og mæta þar Íslandsmeisturum Selfoss.

Bjarni: Akkúrat það sem þú mátt ekki gera gegn þessu liði
„Ég var nokkuð ánægður með okkur. Það er svakalega erfitt að koma hingað og mæta nýliðum í fyrsta leik,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir sigurinn á Fjölni í kvöld.

ÍR-ingar voru yfir allan tímann og hleyptu Fjölnismönnum eiginlega aldrei inn í leikinn.

„Við leiddum þetta nokkuð þægilega allan tímann en um leið og við fórum út úr skipulagi refsuðu þeir. Fjölnismenn eru þolinmóðir og það er erfitt að brjóta þá á bak aftur. Þetta eru skynsamir strákar og þetta er ekki lið sem þú rúllar yfir á fimm mínútum,“ sagði Bjarni.

Fjölnir kom með vísi að áhlaupi um miðjan seinni hálfleikinn. Bjarni hafði samt ekki áhyggjur þótt munurinn færi niður í þrjú mörk.

„Ég var slakur. Þetta var bara akkúrat það sem þú mátt ekki gera gegn þessu liði. Leyfa sér tvísýna hluti og fara út úr skipulagi. En við vorum fljótir að laga þetta,“ sagði Bjarni.

Hann kveðst ánægður með byrjunina á tímabilinu og vonast til að ÍR-ingar byggi ofan á sigur kvöldsins.

„Það er alltaf gott að vinna fyrsta sigurinn. En þetta er langt mót og við þurfum að vera einbeittir í hverjum leik,“ sagði Bjarni að lokum.

Kári: Réðum illa við hraðann þeirra
Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis, sagði að síðustu mínútur fyrri hálfleiks hefðu orðið hans mönnum að falli gegn ÍR.

„Fyrst og fremst fór þetta í lok fyrri hálfleiks. Munurinn var þrjú mörk en fór svo í sex mörk á mjög klaufalegan hátt. Þar varð þessi munur til. En strákarnir sýndu karakter og gerðu atlögu að þessu. Það má byggja á því,“ sagði Kári eftir leik.

Hann var ósáttur við hversu mörg ódýr mörk ÍR skoraði eftir hraðar sóknir.

„ÍR er mjög hratt lið sem skorar mikið eftir hraðaupphlaup og hraða miðju. Mér réðum illa við það. Við fengum alltof mörg mörk á okkur eftir mistök hjá okkur og hraða miðju,“ sagði Kári.

Talsvert ójafnvægi var á sóknarleik Fjölnis en þeir Breki Dagsson og Brynjar Óli Kristjánsson skoruðu 16 af 26 mörkum liðsins.

„Það eru leikmenn hjá mér sem geta betur en þeir sýndu í dag. Auðvitað eru margir að stíga sín fyrstu skref í efstu deild og kannski má skrifa eitthvað á það. En við getum ekki legið yfir því fram eftir vetri,“ sagði Kári að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.