Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Ólafur Ragnar tekjuhæsti stjórnmálamaðurinn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. VÍSIR/ANTON
Fyrrverandi forstjóri Festi er með hæstu tekjur á Íslandi samkvæmt nýju tekjublaði Frjálsrar verslunar, með ríflega tuttugu og átta milljónir króna á mánuði eða þrettánföld laun forsætisráðherra. Hæstu meðallaun hér á landi eru í fjármála- og tryggingastarfsemi. 

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en áréttað er að um sé að ræða útsvarsskyldar tekjur 3725 Íslendinga árið 2018 samkvæmt álagningarskrá og þær þurfi ekki að endurspegla föst laun. Munurinn geti falist í launum fyrir nefndarsetu, önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga eða bónusa.

Jón Björnsson fyrrverandi forstjóri Festi er tekjuhæsti einstaklingurinn í blaðinu með 28,4 milljónir að jafnaði í mánaðartekjur eða þrettánföld laun forsætisráðherra. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar er með 27,5 milljónir í mánaðartekjur. Það skýrist af því að hann ákvað að leysa til sín sparnað úr séreignasjóði lífeyrissjóðs í fyrra samkvæmt athugasemd frá fyrirtækinu. Mánaðarlaun hans séu 7,5 milljónir króna. Vilhelm Róbert Wessman, forstjóri Alvogen kemur þar á eftir með 27,4 milljónir króna á mánuði.

Áttatíu forstjórar eru með um og yfir þrjár milljónir króna í mánaðartekjur og af þeim eru níu konur. Lægstu forstjóralaunin í blaðinu eru laun Bjarna Ármannssonar forstjóra Iceland Seafood 593 þúsund krónur.

Starfsmenn fjármála-og tryggingafyrirtækja eru með hæstu meðallaunin á landinu eða um milljón á mánuði.

Arnar Scheving Thorsteinsson, fjármálastjóri, er með hæstu mánaðartekjurnar um 9,6 milljónir.

37 starfsmenn fjármálafyrirtækja eru með um og yfir þrjár milljónir í mánaðarlaun og eru sjö konur í þeirra hópi. Þá eru bankastjórar Arion, Íslandsbanka og Landsbankans á meðal þeirra. 

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands sá eini sem er með yfir þrjár milljónir úr hópi forseta, alþingismanna og ráðherra en Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er með 2,8 milljónir og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, með tæpar 2,2 milljónir króna á mánuði.


Tengdar fréttir

Óskar telst langtekjuhæsti listamaðurinn

Bóndinn, rithöfundurinn, athafnamaðurinn, lögmaðurinn og formaður Landssamtaka landeigenda Óskar Magnússon telst tekjuhæsti listamaðurinn á Íslandi á síðasta ári.

Tekjur Íslendinga: Jón með 28,3 milljónir á mánuði

Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri Festar, er tekjuhæstur íslenskra forstjóra ef marka má tekjublað Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Samkvæmt útreikningum blaðsins nema mánaðarlaun Jóns á árinu 2018 28,363 milljónum króna. Næst launahæstur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Kári Stefánsson með 27,514 milljónir á mánuði.

Fundað vegna tapreksturs Laugardalsvallarins

Tekjur KSÍ fyrstu sex mánuði ársins eru á pari við áætlanir. Tap á Laugardalsvelli vegna fækkunar á leikjum á vellinum. Sambandið fundar með Reykjavíkurborg vegna vallarins. Ekkert bruðl í landsliðsferðum. Yngri flokka leikir í boði á erlendum veðmálasíðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×