Körfubolti

Fimmtíu þúsund manns sáu bandaríska „C-landsliðið“ í körfubolta vinna sannfærandi sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kemba Walker fer yfir málin með þjálfaranum Gregg Popovich.
Kemba Walker fer yfir málin með þjálfaranum Gregg Popovich. AP/Marcio Jose Sanchez
Bandaríska körfuboltalandsliðið vann sextán stiga sigur á Ástralíu, 102-86, í æfingarleik í Melbourne í Ástralíu í dag en báðar þjóðir eru að undirbúa sig fyrir HM í Kína sem hefst seinna í þessum mánuði.

Það var mikill áhugi fyrir þessum leik en 50 þúsund manns voru á Marvel leikvanginum sem er fjölnota íþróttaleikvangur í Melbourne.



Kemba Walker, fyrirliði bandaríska landsliðsins, fór fyrir sínum mönnum og var með 23 stig í leiknum. Myles Turner bætti við 15 stigum og 14 fráköstum og Donovan Mitchell var með 13 stig.  Kemba Walker er nýbúinn að semja við lið Boston Celtics.

Kyle Kuzma, leikmaður Los Angeles Lakers, hitti úr 4 af 5 þriggja stiga skotum sínum og skoraði 12 stig en þá voru þeir Boston-menn Jaylen Brown og Jason Tatum  báðir með 11 stig.

Sex leikmenn í ástralska landsliðinu spila í NBA-deildinni og þar á meðal eru þeir Joe Ingles, Matthew Dellavedova, Patty Mills og Andrew Bogut.





15-5 sprettur Ástrala í öðrum leikhluta kom muninum niður í eitt stig fyrir hálfleik, 44-43. Ástralar komust síðan einu stigi yfir í byrjun seinni hálfleiks en bandaríska liðið svaraði með þrettán stigum í röð og leit ekki til baka eftir það. Bandaríska liðið vann þriðja leikhlutann 32-18 þar sem liðið hitti úr 13 af 19 skotum sínum.

Bandaríkin er með hálfgert c-landslið á HM í ár. Flestir af bestu leikmönnunum ætluðu aldrei að vera með og þá hafa einnig helstu stjörnur liðsins hætt við að spila með liðinu í sumar. Þeir sem eftir standa kláruðu þennan leik en þeirra bíða þó örugglega mun erfiðari andstæðingar á HM í Kína.

Liðin mætast aftur á laugardaginn á sama stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×